Viðskipti innlent

Hluthafar Marel fá hálfan milljarð króna í arð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Árni Oddur Þórðarsson er forstjóri Marel.
Árni Oddur Þórðarsson er forstjóri Marel. vísir/anton
Tekjur Marel á fjórða ársfjórðungi 2014 námu 200 milljónum evra, eða 30 milljörðum króna, en voru 168,2 milljónir á fjórða fjórðungi 2014. Hagnaður á fjórða ársfjórðungi 2014 nam 3 milljónum evra, eða 450 milljónum króna, en var 3,7 milljónir á sama tímabili árið á undan.

Tekjur ársins 2014 námu 712,6 milljónum evra, um 107 milljörðum króna, og hækkuðu um 7,7% frá fyrra ári, þegar þær voru 661,5 milljón evra. Hagnaður á árinu 2014 nam 11,7, milljónum evra, eða 1755 milljónum króna. Hann var 20,6 milljónir árið á undan. Í afkomutilkynningu segir að hagnaður sé litaður af einskiptiskostnaði í tengslum við hagræðingu í  rekstri á árinu 2014.

„Árið 2014 var ár framfara og breytinga hjá Marel.  Árið fór rólega af stað en með vorinu varð sjáanlegur viðsnúningur með markvissri markaðssókn samhliða aukinni skilvirkni í rekstri. Gott jafnvægi er á milli uppbyggingaverkefna fyrir viðskiptavini, (e. Greenfield) endurnýjunarverkefna og viðhaldsverkefna og þá er landfræðileg dreifing verkefna góð. Það er meðbyr á mörkuðum, sérstaklega í Norður-Ameríku sem nær að vega á móti umróti í Austur- Evrópu og öðrum löndum sem reiða sig á hrávöru,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, í afkomutilkynningu.

Í tilkynningunni kemur fram að stjórn Marel mun leggja til að hluthafar fái greidd 0,48 evru sent í arð á hlut fyrir rekstrarárið 2014. Miðað við fjölda útistandandi hluta nú nemur fyrirhuguð heildararðgreiðsla um 3,5 milljónum evra, eða um 525 milljónir króna miðað við gengi evrunnar í dag. Þetta samsvarar um 30% af nettó hagnaði ársins. Arðgreiðslutillaga þessi er í samræmi við markmið um fjármagnsskipan og arðgreiðslustefnu félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×