Viðskipti innlent

Hagnaður Haga 2,8 milljarðar króna

Samúel Karl Ólason skrifar
Handbært fé félagsins var 3.101 milljónir, eigið fé 13.774 milljónir og eiginfjárhlutfall var 50,1 prósent.
Handbært fé félagsins var 3.101 milljónir, eigið fé 13.774 milljónir og eiginfjárhlutfall var 50,1 prósent. Vísir/Valli
Hagar hf. högnuðust um 2.848 milljónir króna á tímabilinu 1. mars til 30. nóvember í fyrra. Það samsvarar fimm prósentum af veltu félagsins. Handbært fé félagsins var 3.101 milljónir, eigið fé 13.774 milljónir og eiginfjárhlutfall var 50,1 prósent.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Högum, en árshlutareikningur félagsins var samþykktur af stjórn og forstjóra í dag. Verslanir og vöruhús Haga eru Bónus, Hagkaup, Aðföng, Bananar, Ferskar kjötvörur, Hýsing, Útilíf, Zara, Debenhams, Topshop, Evans, Dorothy Perkins, Karen Millen og Warehouse.

Söluaukning félagsins var 1,7 prósent og var vörusalan 56.763 milljónir króna á tímabilinu.

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta nam 4.186 milljónum króna, samanborið við 4.236 milljónir króna árið áður. EBITDA lækkar um 1,2 prósent milli ára og var EBITDA framlegð 7,4 prósent en 7,6 prósent árið áður.

Í tilkynningunni segir að reksturinn sé í takti við áætlun félagsins, en að hægt hafi á söluvexti og skýrist það aðallega af lágri verðbólgu.

„Gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum félagsins hefur styrkst á milli ára og hefur sú styrking að fullu skilað sér í verðlagi til viðskiptavina, eins og sjá má í álagningu félagsins.   Nokkur óvissa er um verðlagsþróun næstu mánuði og misseri meðal annars vegna óvissu um niðurstöðu kjarasamninga og gengisþróun.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×