Viðskipti innlent

Íslandsbanki spáir 0,1% lækkun neysluverðs

Sæunn Gísladóttir skrifar
Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir flugjaldalækkun í mánuðinum.
Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir flugjaldalækkun í mánuðinum. Vísir/Vilhelm Gunnarsson
Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) muni lækka um 0,1% í september frá ágústmánuði. Ef spáin gengur eftir helst verðbólga óbreytt í 2,2%. Verðbólga verður því áfram undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands. Capacent spáir hins vegar óbreyttri vísitölu í mánuðinum, að VNV hækki um 0,04% og að verðbólgan á ársgrundvelli muni hækka í 2,3% og sleikja verðbólgumarkmið Seðlabankans. 



Í greiningu Íslandsbanka segir að verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafi batnað frá síðustu spá meðal annars vegna hækkunar að gengi krónunnar. Talið er að verðbólgan muni þó fara yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans fyrir árslok, en þar eru aðallega grunnáhrif að verki. Horfur eru á vaxandi verðbólgu í kjölfarið, en hún verður þó samkvæmt spánni talsvert undir 4,0% efri þolmörkum verðbólgumarkmiðsins á næsta ári, en nálægt þeim árið þar á eftir. 

Útsölulok hækkar vísitölu

Að vanda munu útsölulok vega talsvert til hækkunar VNV í september. Þó hækkaði verð á fatnaði og skóm nokkuð minna í ágúst sl. en að jafnaði hefur gert í ágústmánuði undanfarin ár, og telur greiningardeildin að hækkunin verði ívið meiri nú í september en í september í fyrra. Gert er ráð fyrir að útsölulok vegi til u.þ.b. 0,24% hækkunar VNV, og að þar af vegi fata- og skóliðurinn til 0,19% hækkunar. Áhrifin af fötum og skóm eru meiri en fyrir ári síðan en þó minni en var að jafnaði fyrir þann tíma þar sem vægi þessa liðar í VNV hefur minnkað töluvert.

Flugfargjöld lækka

Hins vegar lítur út fyrir að ferða- og flutningaliður VNV muni lækka talsvert í september (-0,50% áhrif í VNV), annan mánuðinn í röð. Þar vegur lækkun flugfargjalda þyngst (-0,35% í VNV), en könnun bendir til að veruleg lækkun hafi orðið á flugfargjöldum til útlanda milli mánaða. Einnig hafa olíufélögin lækkað eldsneyti töluvert frá ágústmælingu Hagstofunnar á VNV. Samtals nemur verðlækkun eldsneytis 5,3% á tímabilinu (-0,19% í VNV).

Lækkun IKEA hefur áhrif

Greiningardeildin reiknar með að verðlækkun IKEA á vörum sínum um 2,8% í ágúst hafi áhrif á liðinn húsgöng og heimilisbúnaður í september, þá bæði bein og óbein, en verslunin hefur mikla markaðshlutdeild og er leiðandi í verðmyndun á ódýrari hluta þessa markaðar. Reiknað er með 1,8% verðlækkun á húsgögnum og heimilisbúnaði (-0,03% í VNV) í september. 

Hér má lesa greiningu Íslandsbanka í heild sinni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×