Viðskipti innlent

Greiðslustöðvun Búmanna framlengd

ingvar haraldsson skrifar
Búmenn eiga 540 íbúðir á Suðurlandi, Reykjanesi og á höfuðborgarsvæðinu.
Búmenn eiga 540 íbúðir á Suðurlandi, Reykjanesi og á höfuðborgarsvæðinu. vísir/pjetur
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur framlengt greiðslustöðvun Búmanna til 4. september en félagið fékk upprunalega heimild til greiðslustöðvunar til 5. júní.

Í sumar er stefnt að því að leysa úr fjárhagsvanda Búmanna en eigið fé félagsins er neikvætt um hálfan milljarð króna.

Búmenn er húsnæðissamvinnufélag þar sem félagsmenn, 50 ára og eldri, kaupa búseturétt í einhverri af 540 íbúðum félagsins og greiða síðan mánaðargjald. Vandi Búmanna felst helst í að félagið er skuldbundið til að kaupa til baka búseturétt ríflega helmings íbúa félagsins.

Uppreiknuð skuldbinding Búmanna vegna kaupskyldu nemur 1,58 milljörðum en Búmenn geta ekki greitt hana út. Heildarskuldir Búmanna nema 14,9 milljörðum króna en eignir ríflega 14,3 milljörðum króna.

Þá standa einnig yfir viðræður við Íbúðalánasjóð um að sextíu íbúðir, sem ekki hefur tekist að selja búseturétt að, verði færðar yfir í sérstakt leigufélag í eigu Búmanna. „Samhliða því að þessar eignir verði færðar yfir í leigufélagið þá fari fram afskrift á þeim íbúðum séu þær yfirveðsettar,“ segir Daníel Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Búmanna.

Gangi þetta eftir mun Íbúðalánasjóður afskrifa lán til Búmanna sem nema hálfum milljarði króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×