Viðskipti innlent

Aðstoðarverslunarstjóri Korpuoutlets dæmdur fyrir umboðssvik

ingvar haraldsson skrifar
Athæfi konunnar var til þess fallið að valda Högum, eiganda Korpuoutlets tjóni samkvæmt dómi Héraðsdóms.
Athæfi konunnar var til þess fallið að valda Högum, eiganda Korpuoutlets tjóni samkvæmt dómi Héraðsdóms. vísir/gva
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sakfellt konu sem starfaði sem aðstoðarverslunarstjóri í versluninni Korpuoutlet, Korputorgi, fyrir umboðssvik.

Konan var dæmd fyrir að hafa í alls sjö skipti á tímabilinu 5.-20. júlí 2014 misnotað aðstöðu sína í versluninni í þágu vina og ættingja sem hún afgreiddi með því að skanna vörurnar inn í afgreiðslukassa verslunarinnar og bakfæra verulegan hluta þeirra út úr afgreiðslukassanum, að fjárhæð alls 139.570 króna.

„Vörurnar afhenti ákærða eftir að óverulegur fjöldi varanna stóð eftir í afgreiðslukerfinu til greiðslu með tilheyrandi tjóni fyrir Haga verslanir ehf, kt. [...] eiganda Korpuoutlet“ segir í ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Konan játaði brot sitt og var dæmd til 30 daga fangelsis, en framkvæmd refsingarinnar verður frestað og fellur  niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi hún almennt skilorð.

Þá var konunni gert að greiða Högum hf. 139.570 krónur ásamt vöxtum.

Dóm Héraðsdóms í heild sinni má lesa hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×