Viðskipti innlent

Eiginfjárstaða allra fjölskyldugerða batnaði árið 2014

Sæunn Gísladóttir skrifar
Heildareiginfjárstaða einstæðra foreldra batnaði um tæp 97% árið 2014 og hjóna með börn um rúm 22%.
Heildareiginfjárstaða einstæðra foreldra batnaði um tæp 97% árið 2014 og hjóna með börn um rúm 22%. Vísir/Vilhelm
Eiginfjárstaða allra fjölskyldugerða batnaði um samtals 14,4% árið 2014, eða úr 2.194 milljörðum króna í 2.510 milljarða króna. Eiginfjárstaða í fasteign batnaði um 13,7% og annað eigið fé jókst um 17,2%. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar.

Mesta aukningin var hjá barnafjölskyldum. Heildareiginfjárstaða einstæðra foreldra batnaði um tæp 97% árið 2014 og hjóna með börn um rúm 22%. Eiginfjárstaða einstaklinga batnaði um tæp 15% og hjóna án barna um 10,5%. Eiginfjárstaða batnaði mest milli ára í aldurshópnum 25-44 ára eða á bilinu 36-253% sem einkum má rekja til bættrar eiginfjárstöðu í fasteign.

Fjölskyldum með neikvætt eigið fé í húsnæði fækkaði um rúmlega 27%. Neikvæð eiginfjárstaða þeirra í fasteign nam að meðaltali 4,4 milljónum króna.

Eiginir einstakling jukust um 7,1% milli ára, eða úr 4.121 milljarði króna í 4.412 milljarða króna. Verðmæti í fasteignum hækkaði um 8,3% frá árinu 2013, sem rekja má að hluta til hækkunar fasteignamats milli ára.

Í árslok 2014 námu heildarskuldir 1.902 milljörðum króna og minnkuðu um 1,3% frá fyrra ári, einkum vegna skuldalækkunar einstæðra foreldra og hjóna með börn. Skuldir einstæðra foreldra drógust saman um 3,2% og hjóna með börn um 2,9% en jukust hins vegar hjá hjónum án barna um 0,5% og 0,1% hjá einstaklingum. Íbúðalán námu 1.251 milljörðum króna og jukust um 0,7% milli ára. Aukning íbúðalána var sérstaklega hjá eldri aldurshópnum, eða 8,5% hjá 67 ára og eldri og á bilinu 1,5%-5,2% hjá 50-66 ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×