Viðskipti innlent

SVÞ segir vinnubrögð verðlagseftirlits ASÍ ekki boðleg

Atli Ísleifsson skrifar
SVÞ segir að ASÍ hafi ekki hirt um að gera grein fyrir ástæðum sem liggja að baki því að verð á einstökum vörum kunni að hafa hækkað.
SVÞ segir að ASÍ hafi ekki hirt um að gera grein fyrir ástæðum sem liggja að baki því að verð á einstökum vörum kunni að hafa hækkað. Vísir/ANton
Samtök verslunar og þjónustu segir að með könnun sem greint var frá í gær hafi verðlagseftirlit ASÍ enn á ný orðið uppvíst að vinnubrögðum sem „vart geta talist boðleg“.

Í könnun ASÍ var greint frá því að vörukarfan hefði hækkað í verði í öllum verslunum nema einni frá því í júní. Í yfirlýsingu frá SVÞ segir hins vegar að ekki hafi verið hirt um að gera grein fyrir ástæðum sem liggja að baki því að verð á einstökum vörum kunni að hafa hækkað.

„Eins og verðlagseftirliti ASÍ er fullkunnugt um tók verðlagsnefnd búvara þá ákvörðun í júlí s.l. að hækka verð á mjólk og mjólkurafurðum um 3,58% og að hækka smjör sérstaklega um hvorki meira né minna en um 11,6%. Samtök verslunar og þjónustu mótmæltu þessari ákvörðun kröftuglega og bentu á að hún kæmi á afar óheppilegum tíma í kjölfar erfiðra kjarasamninga, sem eins og öllum væri ljóst, hefðu það að markmiði að færa launafólki í landinu verulega kaupmáttaraukningu. Forsendan fyrir því að það markmið næðist væri að unnt væri að halda aftur af hækkunum á vöru og þjónustu.

ASÍ og aðrir málsvarar launafólks sendu að vísu frá sér mótmæli vegna ákvörðunar verðlagsnefndar búvara. Þau mótmæli hefðu að ósekju mátt vera kröftugri, þar sem ákvörðunin beindist fyrst og fremst gegn hagsmunum hins almenna félagsmanns í verkalýðshreyfingunni.

Það þarf því ekki að koma ASÍ eða öðrum á óvart að sú ákvörðun sem verðlagsnefnd búvara tók í júlí, endurspeglist í verði mjólkur og mjólkurvara. Það ber hins vegar ekki vott um fagleg vinnubrögð af hálfu verðlagseftirlits ASÍ að minnast ekki einu orði á það hvaða orsakir liggi þar að baki. Á meðan verðlagseftirlitið heldur áfram að stunda vinnubrögð sem þessi heldur trúverðugleiki þess áfram að minnka. Almenningur hlýtur að vilja heyra allan sannleikann,“ segir í yfirlýsingunni.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×