Viðskipti innlent

Actavis og Medis vinna til alþjóðlegra verðlauna

Sæunn Gísladóttir skrifar
Stefán Þór Arnarson, Hildur Ragnars og Valur Ragnarsson frá Medis, og Tom Shillingford, Jennifer Antcliff og Anna Valborg Guðmundsdóttir frá Actavis. Þau veittu verðlaununum viðtöku í gærkvöldi.
Stefán Þór Arnarson, Hildur Ragnars og Valur Ragnarsson frá Medis, og Tom Shillingford, Jennifer Antcliff og Anna Valborg Guðmundsdóttir frá Actavis. Þau veittu verðlaununum viðtöku í gærkvöldi. Vísir/Actavis
Actavis og Medis unnu í gær verðlaun sem veitt eru árlega fyrir framúrskarandi árangur fyrirtækja sem starfa í samheita- og líftæknilyfjaiðnaði á alþjóðavettvangi eða Global Generics & Biosimilar Awards. Þetta kemur fram í tilkynningu. Actavis hlaut verðlaun í flokki einkaleyfamálaferla ársins (e. Patent Litigation of the Year), mál sem Actavis vann fyrir dómi í Bretlandi í tengslum við markaðssetningu samheitalyfsins Pregabalin í Bretlandi. Medis hlaut verðlaun í flokki viðskiptaþróunar ársins (e. Business Development of the Year) fyrir markaðssetningu sama lyfs í Þýskalandi og Bretlandi fyrir hönd viðskiptavina sinna. Medis er dótturfélag Allergan, sem jafnframt er móðurfélag Actavis, og selur lyf og lyfjahugvit samstæðunnar til annarra lyfjafyrirtækja.

Medis var einnig tilnefnt í þremur öðrum flokkum: sem fyrirtæki ársins, fyrirtæki ársins í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku, og þá var Valur Ragnarsson, forstjóri Medis, tilnefndur leiðtogi ársins. Verðlaunin eru veitt árlega af lyfjatímaritinu Generics Bulletin í tengslum við stærstu sýningu lyfjamarkaðarins í Evrópu, CPhI, sem nú stendur yfir í Madrid. Yfir 36.000 aðilar úr lyfjageiranum frá yfir 140 löndum sækja sýninguna á ári hverju.

Þróun, skráning og vinna við markaðssetningu lyfsins fór að mestu fram á Íslandi

Pregabalin var þróað af þróunareiningu Actavis hér á Íslandi og skráningarvinnan, þ.e. umsóknir markaðsleyfa og samskipti við yfirvöld þar sem lyfið var markaðssett, voru í höndum skráningarsviðs Actavis hér á landi. Þá fór greining einkaleyfastöðu lyfsins einnig fram hér á landi. Medis vann náið með Actavis til að setja lyfið á markað fyrir sína viðskiptavini um leið og einkaleyfið á frumlyfinu rann út, fyrst í Þýskalandi og svo í Bretlandi. Actavis setti lyfið einnig á markað í Bretlandi undir sínum merkjum.

Einn besti árangur í markaðssetningu lyfs í 30-ára sögu Medis – áfangasigur hjá Actavis í einkaleyfamálaferli

Markaðssetning Medis á Pregabalin gekk vonum framar en tímalínur verkefnisins voru mjög knappar. Með samstilltu átaki starfsmanna Medis og Actavis, reynslu, þekkingu og vönduðum vinnubrögðum, gekk allt upp á mettíma, þrátt fyrir að teymið væri dreift um alla Evrópu. Lyfið var komið á markað innan fjögurra mánaða frá umsókn sem telst frábær árangur enda um gríðarlega flókið ferli að ræða.

Actavis vann áfangasigur í málaferlunum sem um ræðir. Í stuttu máli snérust þau um að framleiðandi frumlyfsins taldi að um brot á einkaleyfi væri að ræða í markaðssetningu lyfsins þar sem fyrirtækið væri með einkaleyfi á ákveðnum upplýsingum í fylgiseðli með lyfinu, þótt að einkaleyfið á lyfinu sjálfu væri runnið út. Actavis vann málið sem það telur mikilvægt fordæmi í slíkum málum og lið í því að tryggja neytendum gott aðgengi að samheitalyfjum á hagstæðu verði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×