Jól

Jólakvíði og streita

Björn Harðarson sálfræðingur skrifar
,,Bráðum koma blessuð jólin, börnin fara hlakka til", eru lög sem við erum flest farin að syngja á þessum árstíma. Jólin eru að koma, þar sem allir eiga gleðjast, eiga góðar stundir saman sem fjölskylda og sinna þörfum hvors annars. Því miður er raunveruleikinn ekki einungis þessi um jólahátíðirnar. Það er kvíði í börnum og foreldrarnir eru pirraðir og stressaðir. Jólin eru nefnilega ekki bara ánægjulegur tími heldur líka streitumesti tími ársins.

Væntingarnar sem fólk setur sér um jólin eru nefnilega mjög miklar. Það þarf að baka 20 smákökusortir eins og hjá Stínu á móti, og þó að vinnutíminn sé langur, og jafnvel enn lengri hjá sumum í desember en venjulega, þarf að fara í búðir með þreytt börnin rétt fyrir lokun til að versla jólagjafir og annað tilheyrandi til jólanna. Auk þess eru allir staddir í troðningnum og kliðnum í Kringlunni á sama tíma. Allir eru þreyttir og pirraðir að reyna ná að gera sem mest á sem stystum ,,dýrmætum tíma".

Jólagjafirnar og jólamaturinn hefur líka áhrif á buddu fólks. Fólk finnst það ,,verði" að kaupa td. dýran hring handa konunni, sem tákn um ástina eða ,,verði" að gefa börnunum stóran pakka þrátt fyrir að skuldastaðan á heimilinu sé hrikaleg fyrir. Á jólunum viljum við nefnilega sýna hversu vænt okkur þykir um okkar nánustu, og bæta bæði börnum okkar og okkar nánustu upp allan þann tíma sem við gátum ekki eytt með þeim áður á árinu.

Börnin hlakka sem betur fer almennt til jólanna en eiga erfitt með allar þær breytingar, og ys og þys sem eiga sér stað fyrir og um jólin. Þau eiga erfitt með að sýna búðarrápi skilning, upplifa pirring foreldra sinna og eru jafnvel æst af mikilli sykurneyslu sem oft fylgir hátíðunum.

Það er ekki bara undirbúningurinn sem veldur kvíða og streitu, heldur margt annað sem fólk býr við og upplifir í kringum jól. Börn foreldra sem eiga við vímuefna vandamál að stríða kvíða oft jólunum þar sem allt fer úr skorðum og í fyllerí. Svo eru aðrir sem sjálf upplifðu drykkjujól og vilja að börnin sín fái betri jól en þau sjálf áttu. Þessi foreldrar eiga þó oft sjálf í erfiðleikum með að njóta jólanna vegna þess að kröfurnar til sjálfs síns verða of miklar og minningarnar ásækja þau.

Jólin eru líka hátið þar sem ættingjar hittast og halda veislu og finnast að þau ,,verði" að gleðjast saman í sátt og samlyndi. Þessi markmið verða oft óraunhæf, valda kvíða og enda jafnvel illa. Þar sem jólin eru táknræn sem fjölskylduhátíð, verða jólin oft mjög einmannaleg fyrir einstæðinga og þá sem misst hafa ástvini sína.

Það sem við þyrftum að gera er að minna okkur á hvað er okkur mikilvægt á jólunum, setja raunhæfar kröfur til okkar og skipuleggja okkur vel. Ekki horfa svo mikið á hvað aðrir gera, dýrar jólagjafir er ekki það sem sýnir ást og umhyggju. Og mundu að setja inn hvíldartíma og samverustundir í desember fyrir þig og börnin þín.






×