Viðskipti innlent

Bréfin lækkuðu í kjölfar uppgjörsfregna

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Árni Oddur Þórðarson er forstjóri Marel.
Árni Oddur Þórðarson er forstjóri Marel. Visir/Anton
Verð hlutabréfa Marel lækkaði um 8,26 prósent í viðskiptum gærdagsins í Kauphöll, á fyrsta viðskiptadegi eftir að félagið upplýsti um taprekstur á fyrsta fjórðungi þessa árs.

Heildarvelta með bréf félagsins í viðskiptum gærdagsins nam 212,6 milljónum króna og endaði verð þeirra í 105,5 krónum á hlut.

Frá því var greint í uppgjöri félagsins fyrir fyrsta ársfjórðung að 1,9 milljóna evra (295 milljóna króna) tap hefði verið á fyrsta fjórðungi, miðað við 5,7 milljóna evra (885 milljóna króna) hagnað á fyrsta fjórðungi 2013.

@Mark Myndatexti:Merki félagsins


Meðal aðgerða sem félagið greip til á fjórðungnum er fækkun starfsmanna. 75 manns var sagt upp, þar af 25 millistjórnendum.

Í tilkynningu til Kauphallar er afkoman sögð lituð af áhrifum nokkurra einskiptisliða sem samtals nemi um 2,4 milljónum evra (372 milljónum króna).

Greint er frá því að hleypt hafi verið af stokkunum áætlun um skýrari rekstraráherslur með það að markmiði að mæta þörfum viðskiptavina með skilvirkari hætti og draga úr árlegum kostnaði um 20 til 25 milljónir evra.

„Upphafsskrefin voru tekin á fyrsta ársfjórðungi og hefur nú þegar tekist að draga úr árlegum kostnaði sem nemur 3,6 milljónum evra,“ segir í tilkynningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×