Viðskipti innlent

Hagnaður Össurar nær tvöfaldast

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Jón Sigurðsson forstjóri Össurar. Í tilkynningu stoðtækja- og gervilimaframleiðandans Össurar til Kauphallar kemur fram að lánakjör félagsins hafi batnað.
Jón Sigurðsson forstjóri Össurar. Í tilkynningu stoðtækja- og gervilimaframleiðandans Össurar til Kauphallar kemur fram að lánakjör félagsins hafi batnað. Fréttablaðið/GVA
Hagnaður Össurar á fyrsta fjórðungi þessa árs er 95,5 prósentum yfir hagnaði sama tímabils í fyrra, tæplega 11,3 milljónir Bandaríkjadala miðað við tæplega 5,8 milljónir dala í fyrra.

Í krónum talið nemur hagnaður félagsins það sem af er ári rúmum 1.265 milljónum.

Velta með bréf félagsins nam 13,8 milljónum króna í Kauphöll Íslands í gær og hækkaði verð þeirra um 4,3 prósent, endaði í 266 krónum á hlut.

Fram kemur í tilkynningu Össurar til Kauphallar að hagnaðurinn það sem af er ári nemi níu prósentum af sölu félagsins, borið saman við sex prósent af sölu á fyrsta ársfjórðungi 2013. Sala Össurar nú nam 121 milljón Bandaríkjadala, samanborið við 97 milljónir á sama tíma 2013 og jókst um rúm 24 prósent. Þar af er innri vöxtur sagður hafa verið sex prósent.

Í uppgjörinu kemur fram að nokkru munar á kostnaði milli fyrsta fjórðungs 2013 og 2014, en hann fór úr 2,2 milljónum dala í 520 þúsund dali. Munar þar mest um gengismun, en í fyrra hallaði á félagið svo nam rúmlega 1,1 milljón dala, en á fyrsta fjórðungi þessa árs skilar munurinn hagnaði upp á 330 þúsund dali.

Haft er eftir Jóni Sigurðssyni, forstjóra Össurar, að niðurstöður fjórðungsins hafi verið í takt við væntingar.

„Við sjáum enn einn ársfjórðunginn þar sem arðsemin er mjög góð og rekstrarhagnaður tvöfaldast á milli ára. Aðhaldsaðgerðir sem við fórum í á síðasta ári og endurhönnun á ferlum hafa jákvæð áhrif, en einnig er ánægjulegt að sjá að markaðsskilyrði á stoðtækjamarkaðnum í Bandaríkjunum eru að þróast í rétta átt.“

Jón bendir líka á að í aprílbyrjun hafi lánasamningi félagsins verið breytt og hann framlengdur um þrjú ár, eða fram til ársins 2019. Lánakjörin segir hann endurspegla sterka fjárhagslega stöðu Össurar og góðar framtíðarhorfur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×