Fastir pennar

Stóra rjómamálið vindur upp á sig

Mikael Torfason skrifar
Vitleysan ríður ekki við einteyming þegar íslenskur landbúnaður er annars vegar. Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor skrifaði áhugaverða grein um rjóma í Fréttablaðið í gær. Þar kom fram að samkvæmt öllu ætti heildsöluverð rjóma að vera undir 300 krónum en er vel yfir 600 krónum.

Af hverju? Jú, verðinu á rjóma er haldið uppi til að halda niðri verði á öðrum mjólkurvörum, að sögn Einars Sigurðssonar, forstjóra Mjólkursamsölunnar. Ólafur Friðriksson, formaður Verðlagsnefndar búvöru, staðfestir þetta og vísar í lagaheimildir í blaðinu í dag.

Svona æfingar með verðlag minna helst á það sem við þekkjum úr sögubókum um ráðstjórnarríkin. Enda er það svo að á þessu ári munu íslenskir skattgreiðendur greiða yfir 12 milljarða með íslenskum landbúnaði sem er næstum helmingur af tekjum greinarinnar. Eins og það sé ekki nóg, þá verndum við þennan sama landbúnað með tollum þannig að samkeppni í greininni er nær engin.

Mjólkursamsalan er undanþegin samkeppnislögum og hefur lengi varið stöðu sína á markaði af mikilli hörku. Lítil fyrirtæki mega sín lítils í samkeppni við risann. Þeim er gert nær ókleift að koma vörum á markað og þurfa fyrirtækin að kaupa afurðir Mjólkursamsölunnar á háu verði. Einar Sigurðsson forstjóri vísar því hins vegar á bug að fyrirtækið sjálft hafi eitthvað með verðlagningu mjólkurafurða eins og rjóma að gera og vísar hann á Verðlagsnefnd búvara.

Ólafur Friðriksson, formaður Verðlagsnefndar, vildi ekki tjá sig um útreikninga Þórólfs hagfræðiprófessors en segir að „undanfarin sex eða sjö ár hefur verið unnið markvisst að því að draga úr þessum verðmismun og láta hverja og eina vörutegund endurspegla sem mest framleiðsluverð.“

Um þetta mál hefur verið þrefað svo árum og áratugum skiptir en fátt ef nokkuð breytist. Virðist þar engu máli skipta þó svo að lögð séu fram gild rök þess efnis að kerfið sé neytendum fjandsamlegt. Þetta virðist snúast um eitthvað allt annað en heilbrigða skynsemi.

Eftir sem áður sitjum við hér uppi með vonlaust kerfi sem virðist ekki gagnast neinum nema þeim sem hafa beina hagsmuni af því að viðhalda því.

Neytendur borga vel fyrir úrelt landbúnaðarkerfi, bæði við innkaupin sjálf sem og í formi óbeinna skatta. Afstaða bænda sjálfra er svo ráðgáta, þeir virðast ekki vilja hrófla við þessu fyrirkomulagi en bera sjálfir lítið úr býtum; flestir fastir í fátæktargildru.

Við sitjum uppi með vonlaus búvörulög og kerfi sem er eitt hið dýrasta og óskilvirkasta í heimi. Hvenær rennur upp sá tími þetta kerfi verði endurskoðað án þess að annarlegir hagsmunir ráði för?






×