Fastir pennar

Ekki spilla þjóðarsáttinni

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Þegar skrifað var undir kjarasamningana á almenna vinnumarkaðnum fyrir jólin var mjög skýrt að ein forsenda þess að þeir væru gerðir – og að hægt yrði að gera nýja og jafnskynsamlega samninga eftir ár – væri að verðhækkunum yrði haldið í skefjum. Ef verðbólgan fer af stað, er kaupmáttaraukningin sem í samningunum felst fljót að hverfa.

Ýmis stærstu sveitarfélög landsins gengust inn á að hætta við boðaðar gjaldskrárhækkanir um áramót. Tuga prósenta gjaldskrárhækkun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur rann þó hægt og hljótt í gegn í ársbyrjun, eins og stjórnendur þar á bæ hefðu misst af fyrirheitum borgarstjórnarmeirihlutans. Nú segir Karl Sigurðsson, formaður stjórnar sjóðsins, að hækkunin hafi verið mistök og hún verði dregin til baka.

Sömuleiðis berast nú fregnir af því að ýmis innlend framleiðslufyrirtæki hyggist hækka verðið á afurðum sínum. Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri hjá Hagkaupi, upplýsti þannig í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í fyrradag að fyrirtæki á borð við Emmess ís, Freyju og Vífilfell hygðust hækka verð á ýmsum vörum um 4,5 til 7 prósent. Það gerist þrátt fyrir að krónan hafi styrkzt undanfarið og verð á innfluttum aðföngum þar af leiðandi væntanlega lækkað.

Loks hækkuðu ýmis gjöld og skattar ríkisins um áramótin. Þannig hækka komugjöld víða í heilbrigðiskerfinu, áfengi og tóbak, eldsneyti og vegabréf, svo dæmi séu nefnd. Enn bólar ekki á þeirri endurskoðun á „vissum breytingum á gjöldum“ ríkisins sem ríkisstjórnin lofaði í tengslum við gerð kjarasamninganna.

Þessar hækkanir skapa óróa hjá almenningi og vinna gegn þeirri þjóðarsátt, sem reynt var að ná með kjarasamningunum. Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins og undirsamtaka þeirra, til dæmis Samtaka iðnaðarins, hvetja nú aðildarfyrirtækin eindregið til að sýna ábyrgð og halda aftur af verðhækkunum. Forsvarsmenn einstakra fyrirtækja hljóta að skilja að þeir geta unnið fyrirtækjum sínum meiri skaða en gagn til lengri tíma með því að stuðla að því að hleypa verðbólgunni af stað. Það spillir samstöðu og stöðugleika á vinnumarkaðnum og ýtir sömuleiðis undir að vaxtastigið í landinu hækki, sem er fæstum fyrirtækjum í hag.

Ríkið og sveitarfélög hljóta líka að passa upp á að hækkanir á gjaldskrám þeirra hleypi ekki illu blóði í almenning, sem sér hækkunina á launaseðlinum fljótt fara í hærri gjöld. Ríkið þarf að fara að greina frá því fljótlega hvaða gjöld eigi að lækka aftur.

Alþýðusambandið boðar að fylgzt verði grannt með því hvaða fyrirtæki hækki hjá sér verð. Haldi þau hækkunum til streitu, verði nöfn þeirra birt.

Það er góð þjónusta við neytendur og launþega, sem fjölmiðlar munu væntanlega aðstoða ASÍ við. Þeir sem vilja varðveita kaupmáttinn í veskjunum geta þá beint viðskiptum sínum til þeirra sem taka virkan þátt í að passa upp á þjóðarsáttina.






×