Lífið

Öll vinna síðasta árs horfin

Baldvin Þormóðsson skrifar
Öldu finnst verst að tapa gögnunum.
Öldu finnst verst að tapa gögnunum. vísir/valli
„Við vorum nýbúin að flytja starfsemina hingað,“ segir stílistinn Alda B. Guðjónsdóttir, en nýverið var brotist inn í fyrirtæki hennar, umboðsskrifstofuna Snyrtilegur klæðnaður.

„Það átti að setja upp öryggiskerfið daginn eftir,“ segir Alda en hún hefur grun um að innbrotið hafi átt sér stað um miðjan dag, líklegast sunnudaginn 23. mars.

„Tölvunum okkar, myndavélunum okkar og símum var stolið en verst er samt að tapa öllum gögnunum sem voru inni á tölvunum,“ segir Alda. „Tölvum er hægt að skipta út, en öll gögnin sem við missum er öll vinnan okkar síðasta ár,“ segir Alda.

„Við sjáum um útlit auglýsinga, að finna húsnæði, leikmynd og leikara eða fyrirsætur. Það er mikilvægt fyrir okkur að geta afhent nýjar myndir af leikurum og húsnæði,“ segir Alda sem er bjartsýn þrátt fyrir erfiðleikana.

„Við látum þetta ekkert stoppa okkur. Við erum heppin að vinna með góðu fólki sem sýnir þessu skilning og hefur boðið okkur hjálp. Ég er ómetanlega þakklát fyrir það.“

„Við bjóðum hverjum þeim sem getur afhent okkur þessi gögn væn fundarlaun og látum málið kyrrt liggja þar,“ segir Alda og biður þá sem hafa upplýsingar um málið að hafa samband í gegnum netfangið snyrtilegur@gmail.com.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.