Lífið

Stórveisla á 40 ára kaupstaðarafmælinu

Marín Manda skrifar
Ásgerður Halldórsdóttir
Ásgerður Halldórsdóttir
„Ég held að þetta verði mjög skemmtilegur dagur því það er mikil stemning í bæjarfélaginu bæði meðal íbúa og starfsmanna. Allir aldurshópar munu taka virkan þátt í afmælisgleðinni, hvort sem það eru leikskólabörn eða eldri borgarar,“ segir Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, sem mun flytja ávarp í dag í tilefni af að nú eru 40 ár síðan Seltjarnarnes öðlaðist kaupstaðarréttindi.

„Það er einnig mikil ánægja meðal bæjarbúa að útilistaverkið Skyggnst á bakvið tunglið eftir Sigurjón Ólafsson verði afhjúpað í hádeginu í dag. Verkið var fjarlægt um tíma þegar World Class-stöðin var byggð en verður nú sett upp að nýju,“ segir Ásgerður.

Það má með sanni segja að Seltjarnarnesbær fari í afmælisbúninginn í dag og tímamótunum verður fagnað með fjölbreyttum viðburðum. Fyrirtæki og stofnanir á Seltjarnarnesi bjóða ókeypis aðgang, afslátt, kynningar og tilboð og opna dyr sínar fyrir gestum. Skólastarf verður jafnframt með óhefðbundnum hætti. Aðalveisluhöldin verða á milli kl. 17 og 19 með mikilli afmælishátíð á Eiðistorgi en boðið verður upp á afmælistertu og forsetahjónin munu heiðra bæjarbúa með nærveru sinni.

„Það er óhætt að segja að það verður mikið fjör og mikið gaman. Jóhann Helgason flytur lagið, Seltjarnarnes sem hann samdi þegar hann var kjörinn bæjarlistamaður Seltjarnarness á sínum tíma og eldri bekkingar grunnskólans flytja atriði úr Bugsey Malone þar sem þau syngja og dansa.“ 



Á heimasíðu bæjarins, www.seltjarnarnes.is, er að finna þétta skemmtidagskrá með fjölbreyttum viðburðum sem bæjarbúar og velunnarar geta notið í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.