Viðskipti innlent

WOW air mun hefja flug til Tenerife

Stefán Árni Pálsson skrifar
Flogið verður allt árið um kring til Tenerife frá 28. mars.
Flogið verður allt árið um kring til Tenerife frá 28. mars.
Í mars á næsta ári mun WOW air hefja flug til Tenerife en þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu.

Flogið verður einu sinni í viku á laugardögum á flugvöllinn Tenerife Sur með brottför frá Íslandi klukkan níu að morgni yfir vetrartímann og klukkan sjö að morgni yfir sumartímann.

Flogið verður allt árið um kring frá 28. mars á nýlegri Airbus A321 flugvél WOW air. Jafnframt mun WOW air bjóða upp á yfir 600 mismunandi gistirými í samstarfi við Bookings.com á Tenerife.

Tenerife hefur verið vinsæll áfangastaður fyrir Íslendinga undanfarin ár en eyjan er stærst af sjö eyjum Kanaríeyja. Tenerife er rétt um 300 kílómetrum frá ströndum Afríku og 1.300 km frá meginlandi Spánar.

„Við erum mjög spennt að geta boðið Íslendingum flug til þessa vinsæla áfangastaðar. Að sjálfsögðu munum við halda áfram okkar verðstefnu að bjóða ávallt lægstu verðin bæði á flugmiðum sem og á hótelum í samstarfi við Bookings.com. Við munum koma með aukna samkeppni í flugi til Tenerife sem mun skila sér í lægra verði til íslenskra neytenda,“ segir Skúli Mogensen forstjóri WOW air.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×