Handbolti

Aron búinn að semja við Veszprém

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron er hér á ferðinni gegn Veszprém á laugardag.
Aron er hér á ferðinni gegn Veszprém á laugardag. vísir/getty
Ungverska félagið Veszprém tilkynnti á heimasíðu sinni í dag að það væri búið að semja við íslenska landsliðsmanninn Aron Pálmarsson.

Samningur Arons við félagið er til þriggja ára og Aron gengur í raðir félagsins næsta sumar en hann á eitt ár eftir af samningi sínum við Kiel.

Aron fékk aðeins að kynnast tilvonandi liðsfélögum sínum um helgina er hann mætti Veszprém í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Þar hafði Kiel betur í hörkuleik. Aron var svo kosinn besti leikmaður úrslitahelgarinnar en hann er heldur betur búinn að stimpla sig inn í hóp bestu handboltamanna heims.

Þetta ungverska lið er gríðarlega sterkt og hefur verið að bæta við sig sterkum mönnum síðustu ár. Til að mynda kom Momir Ilic frá Kiel til Veszprém síðasta sumar.

Félagið ætlar sér alla leið á toppinn í Evrópu og með Aron í broddi fylkingar er liðinu klárlega allir vegir færir.

Aron verður 24 ára gamall í sumar. Hann er uppalinn hjá FH en gekk í raðir Kiel árið 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×