Viðskipti innlent

Hefði mátt nýta fjármunina til að greiða niður skuldir ríkisins

Haraldur Guðmundsson og Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Frá fundi sendinefndarinnar á Kjarvalsstöðum í morgun.
Frá fundi sendinefndarinnar á Kjarvalsstöðum í morgun. Vísir/Stefán
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) telur að nota hefði mátt þá fjármuni sem fara í skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar í önnur áríðandi verkefni eins og að greiða niður skuldir hins opinbera. 

Þetta segir Peter Dohlman, yfirmaður sendinefndar AGS. Hann kynnti nýja úttekt sjóðsins á stöðu Íslands á blaðamannafundi á Kjarvalsstöðum í morgun.

Þar kom fram að sendinefndin telur að skuldaleiðréttingin muni hafa jákvæð áhrif á efnahag íslenskra heimila og að íslenska hagkerfið sé á réttri leið. Ýmis skref hafi verið tekin í vetur sem hafi leitt til aukins efnahagslegs stöðuleika. Stjórnvöld þurfi hins vegar að halda áfram við að takast á við afleiðingar fjármálakreppunnar og meðal annars móta skýra og skynsama stefnu um afnám gjaldeyrishafta, enda hafi skilningur manna á umfangi málsins breyst. 

Ríkisstjórnin er að mati sjóðsins á réttri leið þegar kemur að lækkun opinberra skulda en AGS telur eins og áður segir frekari skuldalækkun nauðsynlega. Þá sagði Peter tillögur ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum skref í rétta átt.

Í yfirlýsingu sendinefndarinnar er einnig bent á að verðbólgan er nú undir verðbólgumarkmiðum Seðlabanka Íslands en að hún eigi líklega eftir að hækka á næsta ári, meðal annars vegna nýgerðra kjarasamninga. Fyrirhugaðar breytingar á lögum um Seðlabankann muni varðveita sjálfstæði hans og ábyrgð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×