Handbolti

Eigandi Hamburg vill fá meiri stuðning frá borginni

Rudolph mættur á bekkinn til sinna manna og virkar ekki kátur.
Rudolph mættur á bekkinn til sinna manna og virkar ekki kátur. vísir/getty
Eigandi handboltaliðsins Hamburg, Andreas Rudolph, hefur mokað peningum í félagið undanfarin ár en eitthvað virðist pyngjan hjá honum vera að léttast.

Rudolph náði takmarki sínu í fyrra þegar lið hans vann Meistaradeildina. Einhver hefði haldið að það myndi hjálpa honum að laða að styrktaraðila og meira fé í reksturinn en sú er ekki raunin.

Nú er eigandinn moldríki farinn að kvarta yfir borgaryfirvöldum sem hann segir að eigi að styðja betur við félagið.

"Liðið okkar er frábært skemmtiatriði en við fáum enga athygli. Okkur líður eins og við höfum verið yfirgefnir," sagði Rudolph.

"Borgin skilur ekki hvað við höfum verið að gera fyrir hana í mörg ár. Við erum auglýsing fyrir borgina og svo vinnum við mikið með ungu fólki og gefum því tækifæri."

Áhuginn á liðinu hefur minnkað mikið í vetur enda gengið ekki verið eins gott. Um 2.000 færri mæta að meðaltali á leiki liðsins í ár en í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×