Viðskipti innlent

Sautján sagt upp hjá Deloitte

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Alls starfa um 190 hjá fyrirtækinu en fækkar nú um sautján.
Alls starfa um 190 hjá fyrirtækinu en fækkar nú um sautján. vísir/pjetur
Endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækið Deloitte hefur boðað skipulagsbreytingar innan fyrirtækisins og í kjölfarið munu sautján starfsmenn missa vinnuna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Deloitte.

„Töluverðar breytingar hafa orðið á starfsemi endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækja að undanförnu og samkeppni,“ segir í tilkynningunni.

„Til að aðlagast breyttum aðstæðum hefur Deloitte gripið til skipulagsbreytinga sem eru nauðsynlegar til að hagræða í rekstri og styrkja markaðslega stöðu fyrirtækisins. Skipulagsbreytingunum, sem meðal annars felast í sameiningu sviða fyrirtækisins, fylgja óhjákvæmilega breytingar sem leiða til fækkunar starfsmanna.“

Alls starfa um 190 hjá fyrirtækinu en fækkar nú um sautján og segir í tilkynningunni að þeim verði veitt aðstoð við að finna ný störf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×