Viðskipti innlent

VÍS tapaði fjórtán milljónum á fyrsta ársfjórðungi

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sigrún Ragna Ólafsdóttir
Sigrún Ragna Ólafsdóttir visir/vilhelm
Fjórtán milljóna króna tap varð af rekstri Vátryggingafélags Íslands á fyrsta fjórðungi samanborið við 711 milljóna króna hagnað á sama tímabili árið 2013 en þetta kemur fram í samstæðuárshlutareikningur VÍS fyrir fyrsta ársfjórðung 2014.

Iðgjöld tímabilsins námu 3.861 m.kr. samanborið við 4.024 m.kr sama tímabil árið 2013.

Framlegð af vátryggingarekstri var neikvæð um 66 m.kr. samanborið við jákvæða framlegð 19 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi árið 2013. Samsett hlutfall var 102,9% samanborið við 100,4% á sama tímabili 2013.

Fjármunatekjur námu 171 m.kr. samanborið við 976 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi 2013. Heildareignir í lok mars námu 50.183 m.kr. samanborið við 46.254 m.kr. í árslok 2013.

„Rekstur félagsins var þungur á fyrsta ársfjórðungi ársins en það ber að hafa í huga að rekstur tryggingafélaga er nokkuð sveiflukenndur frá einum ársfjórðungi til annars. Tjónaþungi var meiri á fyrsta ársfjórðungi en verið hefur um nokkurt skeið og var samsett hlutfall félagsins á fjórðungnum 102,9% samanborið við 100,4% á sama tímabili 2013,“ segir Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS.

„Iðgjöld félagsins dragast saman frá sama tímabili 2013 en áherslur félagsins á að bæta arðsemi af vátryggingastarfseminni og samkeppni á markaði skýra lækkunina. Ávöxtun af fjárfestingasafni félagsins á 1. ársfjórðungi var nokkuð undir væntingum stjórnenda og verulega lægri en á sama tímabili 2013. Markaðir bæði fyrir hlutabréf og verðtryggð skuldabréf skiluðu lágri eða neikvæðri ávöxtun á tímabilinu og námu tekjur af fjárfestingastarfsemi félagsins 171 milljón króna samanborið við 976 milljónir króna á á sama tímabili 2013. Rekstrarkostnaður stóð í stað á milli ársfjórðunga.“

Sigrún segir að áfram verði unnið að því í samræmi við stefnu félagsins að einfalda starfsemi þess með því að leiðarljósi að bæta þjónustu við viðskiptavini og auka ánægju þeirra, auka skilvirkni í starfseminni og lækka þannig rekstrarkostnað.

„Á ársfjórðungnum var rekstri á útstöðvum upplýsingatæknikerfa, notendaþjónustu og alrekstri á öllum miðlægum tölvukerfum félagsins útvistað í kjölfar útboðs og öll tölvukerfi félagsins flutt til Reiknistofu bankanna. Útvistun mun einfalda upplýsingatæknirekstur félagsins og færa því meiri áherslu á kjarnastarfsemi þess, lægri kostnað, aukinn sveigjanleika og öryggi í rekstri.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×