Viðskipti innlent

Fjöldi fyrirtækja boðar verðlækkanir

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Samtök atvinnulífsins fagna verðlækkunum.
Samtök atvinnulífsins fagna verðlækkunum. mynd/valli
Fjöldi fyrirtækja hefur boðað verðlækkanir í dag og í gær, eða tilkynnt að hætt verði við áður boðaðar verðhækkanir.

Fyrirtækin Fóðurblandan, Bústólpi og Lífland hafa öll boðað tveggja prósenta lækkun á kjarnfóðri vegna styrkingar íslensku krónunnar og lækkandi heimsmarkaðsverðs á hráefnum.

Nói Síríus sendi frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að fyrirtækið vilji leggja sitt af mörkum til að sátt megi nást um nýgerða kjarasamninga. Áður hafi verið tilkynnt um hækkun á bilinu 2,5 til 9 prósent en eftir endurskoðun verða efri mörk hækkunarinnar 7 prósent.

Þá hefur Vífilfell ákveðið að draga til baka áður tilkynnta 5 prósenta hækkun heildsöluverðs á próteindrykknum Hámarki. „Vífilfell axlar ríka  samfélagslega ábyrgð hvað verðlagsmál varðar og er Hámark engin undantekning eins og sést á ákvörðun fyrirtækisins um að draga verðhækkunina frá því um áramótin til baka,“ segir í tilkynningu.

Í gær greindi Vísir frá verðlækkunum hjá Emmessís, Hagkaupum og Bónus, og segir í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins að þessu jákvæða framlagi sé fagnað.

„Samtök atvinnulífsins hvetja fyrirtæki þessa dagana, ásamt sveitarfélögum og ríki, til að leggja sitt af mörkum til að skapa stöðugt verðlag.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×