Viðskipti innlent

Hagar græddu milljarði meira en á fyrra reikningsári

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Frá skráningu 2011. Finnur Árnason forstjóri Haga og Páll Harðarson forstjóri Kauphallarinnar.
Frá skráningu 2011. Finnur Árnason forstjóri Haga og Páll Harðarson forstjóri Kauphallarinnar. Fréttablaðið/GVA
Fjárfestar tóku ársuppgjöri Haga vel í fyrstu viðskiptum eftir birtingu þess í gær. Bréf félagsins hækkuðu um rúm tvö prósent í viðskiputum framan af degi en enduðu svo daginn í tæplega prósents hækkun, 43 krónum á hlut.

Hagnaður Haga á síðasta rekstrarári, sem lauk um mánaðamótin febrúar/mars, nam 3.953 milljónum króna. Afkoman er 33,6 prósentum betri en ári fyrr þegar hagnaðurinn var 2.958 milljónir.

Fyrir aðalfundi félagsins, sem haldinn verður 5. júní næstkomandi, liggur tilaga um greiðslu arðs sem nemi 1,0 krónum á hlut vegna reikningsársins 2013/2014. Heildararðgreiðsla nemur þá 1.172 milljónum króna.

Fram kemur í tilkynningu Haga til Kauphallar að í tilefni af góðu uppgjöri hafi Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus og Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, afhent Eiríki Jónssyni, yfirlækni á Landspítalanum, 25 milljóna króna framlag til kaupa á svokölluðum aðgeraðþjarka sem nýtist til marvíslegra skurðaðgerða á grindarholslíffærum kvenna og við þvarfæraskurðlækningar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×