Handbolti

Sverre skoraði en Grosswallstadt tapaði - auðvelt hjá Ljónunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sverre Andreas Jakobsson
Sverre Andreas Jakobsson Mynd/HSÍ
Sverre Andreas Jakobsson og félagar í Grosswallstadt töpuðu gríðarlega mikilvægum leik á heimavelli á móti TV 1893 Neuhausen í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld en Grosswallstadt þurfti nauðsynlega á báðum stigunum að halda í baráttunni fyrir lífi sínu í deildinni.

Rúnar Kárason var með tvö mörk og þrjár stoðsendingar og Sverre Andre Jakobsson skoraði eitt marka þegar Grosswallstadt tapaði leiknum 26-28 eftir að hafa verið með frumkvæðið nær allan leikinn og 14-11 forystu í hálfleik.

Neuhausen vann síðustu sex mínútur leiksins 4-1 og tryggði sér dýrmætan sigur. Neuhausen er það með með tveggja stiga forskot á Grosswallstadt en bæði lið eru í fallsæti. Neuhausen er tveimur stigum á eftir VfL Gummersbach sem situr í síðasta örugga sætinu.

Sverre var aðeins búinn að skora eitt mark í fyrstu 28 deildarleikjum Grosswallstadt á tímabilinu enda spilar hann bara vörnina og fær venjulega ekki að fara fram í hraðaupphlaupunum. Sverre skoraði markið sitt á 10. mínútu þegar hann jafnaði metin í 4-4 en Rúnar Kárason átti að sjálfsögðu stoðsendinguna á landa sinn.

Lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar í Rhein-Neckar Löwen unnu sannfærandi átta marka heimasigur á TUSEM Essen, 29-21. Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði þrjú mörk fyrir Löwen-liðið og Alexander Petersson var með eitt mark. Þýski landsliðsmaðurinn Patrick Groetzki var markahæstur hjá Löwen með átta mörk.

Rhein-Neckar Löwen minnkaði forskot Kiel á toppnum í þrjú stig en lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í Kiel eiga leiki inni á Ljónin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×