Viðskipti innlent

Ferðamenn eyddu 9,8 milljörðum í júní

Nóg var af ferðamönnum á landinu í júní.
Nóg var af ferðamönnum á landinu í júní. MYND/VÍSIR
Erlendir ferðamenn eyddu 9,8 milljónum króna á Íslandi í júní. Greiðslukortaveltan jókst alls um 18,1% frá sama mánuði í fyrra. Ferðamennirnir vörðu mestu í gistingu, næstmestu í verslun og þar næst í ýmsa skipulagða ferðaþjónustu eins og skoðunarferðir og hvalaskoðun. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Rannsóknarsetur verslunarinnar sendi frá sér í dag.

Veitingahús njóta góðs af ferðamannastraumnum, en ferðamenn greiddu rúmlega 1,1 milljarð kr. með greiðslukortum fyrir veitingar í júní. Er það 24% aukning frá júní í fyrra.

Þá greiddu erlendir ferðamenn næstum 1,8 milljarð með kortum sínum í verslunum hér á landi, sem var 13%  hærri upphæð en í júní í fyrra. Fjórðungsaukning  var í erlendri kortaveltu í dagvöruverslunum og 17% aukning í Fríhöfninni.

Kortavelta vegna gistingar á tjaldstæðum og öðrum gististöðum en hótelum og gistiheimilum, jókst um 119% í júní frá sama mánuði í fyrra. Erlend kortavelta á þessum gistisvæðum nam 9 milljónum í júní síðastliðnum sem er þó aðeins brot af greiðslum vegna hótelgistinga sem var um 2,5 milljarðar kr.

Íslendingar eyða minna í ferðaþjónustu

Íslendingar verja mun minna fé til ferðaþjónustu hér innanlands. Í júní var innlend kortavelta vegna ferðaþjónustu 6,6% minni en í sama mánuði í fyrra.

Kortavelta Íslendinga fyrir flugferðir í júní var 11,6% minni en í júní í fyrra. En kortavelta vegna gistiþjónustu jókst hins vegar um 8,4%. Það þarf þó ekki að vera vegna minni ferðalaga landsmanna því samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar var verð á flugferðum til útlanda um 2% lægra í júní síðastliðnum miðað við júní í fyrra. Þessi lækkun kann að skýra þessa lækkun á útgjöldum landsmanna til ferðaþjónustu.

Hér er hægt að skoða mánaðarlegar tölur Rannsóknaseturs verslunarinnar um greiðslukortaveltu ferðamanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×