Viðskipti innlent

Mesta erlenda fjárfestingin eftir hrun

Jakob Bjarnar skrifar
Blaðamannafundurinn er nú yfirstandandi í Hörpu en meðal viðstaddra er Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands.
Blaðamannafundurinn er nú yfirstandandi í Hörpu en meðal viðstaddra er Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands. Kjartan Hreinn Njálsson
Kanadíska fyrirtækið Methanex tilkynnti á blaðamannafundi rétt í þessu um 600 milljóna fjárfestingu í íslenska eldsneytisfyrirtækinu Carbon Reycling International sem rekur fyrstu verksmiðju sinnar tegundar sem framleiðir endurnýjanlegt metanól úr útblæstri, vatni og raforku.

Methanex leggur til nýtt hlutafé að verðmæti 5 milljónir bandaríkjadala eða sem nemur 600 milljónir íslenskra króna, og áformar jafnframt aukna fjárfestingu til að styðja áframhaldandi vöxt CRI. Um er að ræða mestu erlendu fjárfestingu hér á landi eftir hrun. Methanex verður einn af stærstu hluthöfum CRI og tekur fulltrúi fyrirtækisinins sæti í stjórn CRI.

„Við erum mjög stolt af því að fjárfesta í CRI, sem er leiðandi á sviði framleiðslu endurnýjanlegs metanóls og að geta gert fyrirtækinu kleyft að vaxa enn hraðar,“ segir John Floren, forstjóri Methanex. Og heldur áfram: „Örasti vöxtur í spurn eftir metanóli á heimsmarkaði er til eldsneytisnota.  Við teljum að endurnýjanlegt metanól muni knýja frekari vöxt á þeim markaði. CRI teymið hefur þegar þróað nýja tækni, starfrækir verksmiðju og markaðssetur metanól með góðum árangri. Þessi árangur undirstrikar verðmæti þessarar fjárfestingar.“

„Það er okkur mikil ánægja að fá Methanex í hóp hluthafa, með sæti í stjórn CRI. Methanex er leiðandi afl í þessum iðnaði, hvort heldur horft er til framleiðslu, sölu eða markaðsstarfs. Nú hyggjum við á aukna markaðssókn fyrir metanól sem eldsneyti og því er mikill styrkur af samstarfinu við Methanex,“ sagði K-C Tran, forstjóri CRI. „Við höfum einstaka reynslu af því að byggja og reka fyrstu verksmiðju sem nýtir útblástur gróðurhúsalofttegunda til framleiðslu á fljótandi eldsneyti. Þar sem spurn á heimsmarkaði fer vaxandi eftir eldsneyti sem leiðir til umtalsverðs samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda, er CRI í ákjósanlegri stöðu til að leggja grunn að aukinni framleiðslugetu á Íslandi. Með þessari fjárfestingu hefur Methanex sýnt fram á verðmæti þeirrar þekkingar sem við höfum aflað og gerir þessi stuðningur okkur kleyft að hraða vexti fyrirtækisins.“

CRI framleiðir og selur endurnýjanlegt metanól á Íslandi og víðar í Evrópu, undir vörumerkinu  Vulcanol.  Vulcanoli er blandað í bensín eða notað við framleiðslu á öðru eldsneyti, þar á meðal lífdísil. Verksmiðja CRI hefur verið vottuð af stofnuninni International Sustainability and Carbon Certifcation system (ISCC) og telst Vulcanol endurnýjanlegt og sjálfbært eldsneyti sem skilar lágmarks sótspori við framleiðslu og notkun, án áhrifa á lífríki og umhverfi.

Í tilkynningu kemur fram að Methanex og CRI hyggja á nánara samstarf um að reisa stærri eldsneytisverksmiðjur hér á landi með tækni CRI, sem nýta munu innlenda raforku og endurvinna koltvísýring. Til stendur að nýta sérhæfingu Methanex á sviði framleiðslu, dreifingu og sölu metanóls um allan heim og þekkingu CRI á sviði sjálfbærrar framleiðslu og markaðssetningar endurnýjanlegs eldsneytis. Fyrirtækin telja mikið sóknarfæri á markaði fyrir eldsneyti blandað metanóli í Evrópu.

Methanex er skráð kanadískt almenningshlutafélag með höfuðstöðvar í Vancouver og er stærsti seljandi metanóls í heiminum. Hlutabréf Methanex eru skráð í kauphöllinni í Toronto undir heitinu „MX“ og á NASDAQ markaðnum í Bandaríkjunum undir heitinu „MEOH.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×