Handbolti

Frábær lokakafli hjá Löwen-liðinu - tíu íslensk mörk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefán Rafn Sigurmannsson.
Stefán Rafn Sigurmannsson. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Stefán Rafn Sigurmannsson og Alexander Petersson skoruðu báðir fimm mörk þegar Rhein-Neckar Löwen vann fimm marka sigur á TV Grosswallstadt, 26-21, í Íslendingaslag í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Rhein-Neckar Löwen komst á ný í toppsætið með þessum sigri en liðið hefur eins stigs forskot á Kiel og það stefnir í svakalegan lokasprett í baráttunni um þýska meistaratitilinn.

Grosswallstadt-liðið var 18-16 yfir þegar fimmtán mínútur voru eftir en Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Rhein-Neckar Löwen, tók þá leikhlé og Löwen vann síðustu 15 mínúturnar 10-3.

Rúnar Kárason skoraði sjö mörk fyrir Grosswallstadt þar af fimm þeirra í fyrri hálfleiknum en Sverre Andre Jakobsson spilaði að venju bara í vörninni.

Ólafur Gústavsson skoraði eitt mark þegar SG Flensburg-Handewitt gerði 26-26 jafntefli við MT Melsungen á útivelli.

Björgvin Páll Gústavsson og félagar í Magdeburg töpuðu 27-33 á útivelli á móti Balingen-Weilstetten.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×