Viðskipti innlent

Miklar hömlur og óvissa fæla fjárfesta frá

Jóhannes Stefánsson skrifar
Björg Hjördís Ragnarsdóttir
Björg Hjördís Ragnarsdóttir
Smæð markaðar, óöguð hagstjórn, fjarlægð frá öðrum mörkuðum, skattalöggjöf og pólitísk áhætta eru þess valdandi að Ísland er meðal þeirra landa heims þar sem hömlur á erlendri fjárfestingu eru hvað mestar.

„Við erum á pari við Kína, Indland og Indónesíu varðandi það hversu auðvelt er að fjárfesta hér á landi. Það eru fjögur neðstu löndin af öllum OECD-löndunum,“ segir Björg Hjördís Ragnarsdóttir, höfundur B.Sc-.ritgerðar við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík sem fjallar um það hvort Ísland sé góður fjárfestingarkostur fyrir erlenda fjárfesta.

Hún skrifaði ritgerðina í félagi við Þorstein Svavar Fransson.

„Sundurlyndi íslensku stjórnmálaflokkanna varðandi erlenda fjárfestingu veldur pólitískri óvissu, sem leiðir til þess að erlendir fjárfestar treysta sér tæplega til að koma með fjármagn til landsins,“ segir Björg.

Björg segir fjárfesta gjarnan háða duttlungum einstakra ráðherra hvað varðar möguleika til fjárfestinga, sem fæli þá frá.

„Það hefur líka brunnið við að það hefur reynst erfitt að treysta orðum ráðherra,“ segir Björg.

Björg segir að hugsa þurfi reglur um erlenda fjárfestingu upp á nýtt. „Það er engin heildræn stefna til um erlenda fjárfestingu á Íslandi, sem veldur óstöðugleika og óvissu,“ bætir hún við.

Hún segir fjölmörg tækifæri vera hér til fjárfestingar. „Það er nóg af tækifærum, til að mynda í grænni orku og fleira. Það er ekki bara í stóriðju sem er hægt að fjárfesta hér á landi,“ segir Björg Hjördís Ragnarsdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×