Viðskipti innlent

HS orka tapaði tæpum milljarði á fyrsta ársfjórðungi

Tap af rekstri HS Orku á fyrsta ársfjórðungi ársins nam 942 milljónum króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Í henni segir að tekjur hækkuðu um 6%, eða um 106 milljónir kr. og námu 1.947 milljónum kr. í lok ársfjórðungsins en voru 1.841 milljónir kr. á sama tímabili árið 2012.

Að sama skapi hækkar rekstrarkostnaður um 10% eða sem nemur 111 milljónum kr. milli þessara tímabila Nokkrar ástæður eru fyrir þessari aukningu tekna. Munar þar mest um aukna sölu á smásölumarkaði en lækkandi álverð dregur svo úr tekjuaukningunni á móti.

Orkukaup hafa aukist nokkuð og flutningskostnaður hækkað vegna breytinga á gjaldskrá Landsnets. Þá hefur skrifstofu- og stjórnunarkostnaður hækkað, fyrst og fremst vegna kostnaðar við gerðardómsmál vegna orkusölusamnings við Norðurál á Grundartanga og hækkunar lífeyrisskuldbindingar.

Fjármagnsliðir hafa afgerandi áhrif á afkomu tímabilsins. Þar vegur þyngst lækkun afleiðna (framtíðarvirði orkusölusamninga sem tengjast álverði) um 2.756 milljónir kr. Á móti komi gengishagnaður upp á 936 milljónir kr.

Eiginfjárhlutfall er mjög sterkt í lok mars 2013 eða um 54%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×