Viðskipti innlent

Greiðsla á risavöxnum ríkisbréfaflokk veikir gengi krónunnar

Ríkissjóður þarf að greiða upp rúmlega 74 milljarða kr. á föstudag en þá er risavaxinn flokkur ríkisskuldabréfa á gjalddaga. Um er að ræða flokkinn RIKB13. Veikingu krónunnar að undanförnu má sennilega rekja til þessa uppgjörs.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að gjalddagi ríkisbréfaflokksins á föstudaginn sé líklegur til að hafa talsverð áhrif á skuldabréfamarkaðinn, enda um stærsta gjalddaga óverðtryggðra ríkisbréfa frá upphafi að ræða.

Þá eru líkur á að gjaldeyriskaup erlendra aðila verði umtalsverð eftir gjalddagann, og gæti það raunar skýrt veikingu krónu síðustu daga að stórum hluta.

Gjalddaginn á föstudag er óvenju stór í sniðum. Um síðustu mánaðamót voru alls útistandandi 84,9 milljarðar kr. af RIKB13-bréfum samkvæmt nýlega útgefnum Markaðsupplýsingum Lánamála. Þar af voru verðbréfalán 10,7 milljarðar kr. en 74,1 milljarð kr. þarf ríkissjóður að greiða út á föstudag.

„Við gerum því ráð fyrir að u.þ.b. 75 milljarðar kr. leiti í aðra ávöxtunarkosti eftir gjalddagann á föstudag. Efalítið mun stór hluti þess fjár liggja í innlánsreikningum fjármálastofnana í einhvern tíma fyrst eftir gjalddagann en skila sér síðan í talsverðum mæli inn á markað þegar líður á árið,“ segir í Morgunkorninu.

„Krónan hefur veikst nokkuð undanfarna viku og gæti sú veiking að okkar mati tengst gjalddaganum, þar sem bankarnir þurfa hugsanlega að hafa handbæran talsverðan gjaldeyri til að mæta framangreindum gjaldeyriskaupum næsta kastið. Nemur veikingin gagnvart evru 2,6% og gagnvart Bandaríkjadollar 3,7%, en evran hefur veikst talsvert gagnvart dollaranum á tímabilinu.

Enn er krónan þó u.þ.b. 8% sterkari gagnvart báðum þessum myntum en raunin var í upphafi ársins. Það gæti orðið að brattann að sækja fyrir krónuna vegna þessa næstu daga, en við eigum þó von á að hún braggist að nýju þegar frá líður og árstíðabundið gjaldeyrisinnflæði nær sumarhámarki sínu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×