Viðskipti innlent

Tæplega einn og hálfur milljarður í hagnað

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Rafmagnslínur á Hellisheiði. Kærumál vegna gjaldskrár eru óvissuþáttur í rekstri Landsnets, að því er fram kemur í uppgjöri félagsins.
Rafmagnslínur á Hellisheiði. Kærumál vegna gjaldskrár eru óvissuþáttur í rekstri Landsnets, að því er fram kemur í uppgjöri félagsins. Fréttablaðið/Vilhelm
Hagnaður Landsnets á fyrri helmingi ársins er ríflega sex sinnum meiri en á sama tíma í fyrra samkvæmt nýbirtum rekstrarreikningi.

Hagnaðurinn það sem af er árinemur 1.488 milljónum króna samanborið við 236 milljóna króna hagnað fyrstu sex mánuði síðasta árs.

Breytinguna má rekja til þess að hrein fjármagnsgjöld félagsins hafa dregist saman um tæpar 886 milljónir króna milli ára.

Árshlutareikningur Landsnets var samþykktur á fundi stjórnar í gær og birtur á vef Kauphallar Íslands.

Landsnet er dótturfélag Landsvirkjunar sem á rúm 64,7 prósent í félaginu. Aðrir eigendur eru Rarik með ríflega 22,5 prósenta hlut, Orkuveita Reykjavíkur sem á tæplega 6,8 prósent og Orkubú Vestfjarða með rétt tæplega 6 prósenta hlut.

Fram kemur í tilkynningu að rekstrarhagnaður Landsnets fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) hafi fyrstu sex mánuði ársins numið 4.850 milljónum króna samanborið við 4.178 milljónir í fyrra. Aukningin nemur 672 milljónum króna á milli ára.

Eiginfjárhlutfall Landsnets í lok júní var 19,4 prósent samanborið við 17,7 prósent í lok árs 2012.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×