Lífið

Íslensk gospelsveit í útrás til BNA

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Daney Björk Haraldsdóttir er söngkona GIG. Hljómsveitin gerði nýverið samning við bandarískt útgáfufyrirtæki.
Daney Björk Haraldsdóttir er söngkona GIG. Hljómsveitin gerði nýverið samning við bandarískt útgáfufyrirtæki. FRÉTTABLAÐIÐ/ARNÞÓR
„Við erum rosaleg ánægð með samninginn og hann gefur okkur mikla möguleika. Gospelmarkaðurinn er mjög stór í Bandaríkjunum,“ segir Daney Björk Haraldsdóttir, söngkona gospelhljómsveitarinnar GIG. Sveitin gerði nýverið plötusamning við bandaríska útgáfufyrirtækið Tate Music Group.

Nýjasta plata sveitarinnar kom út hér á landi um liðna helgi og var henni fagnað með ókeypis útgáfutónleikum í Lindarkirkju.

Á plötunni má meðal annars heyra nýja útgáfu af laginu Vetrarsól eftir Gunnar Þórðarson. „Gunni var mjög sáttur við okkar útgáfu af laginu og bauðst til þess að tala við textahöfund lagsins, Ólaf Hauk Símonarson, um að semja enskan texta við lagið vegna þess að lagið er einnig á bandarískri útgáfu plötunnar,“ segir Daney Björk.

Platan kemur út í Bandaríkjunum í lok árs. Nafn sveitarinnar, GIG, stendur fyrir Gospel Invasion Group og var hún stofnuð fyrir tíu árum. „Það hafa orðið mannabreytingar í sveitinni á þessum árum en við erum mjög sátt við mannskapinn í dag.“

Þess má geta að þrátt fyrir að sveitin sé gospelhljómsveit er hún ekki tengd neinum sérstökum trúarsöfnuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.