Viðskipti innlent

Safnar á netinu til að fjármagna framleiðslu á þrívíddargræju

Þorgils Jónsson skrifar
Íris segir hugmyndina að Kúlu Deeper hafa sprottið af hennar eigin áhuga á þrívíddarljósmyndun. Myndin er tekin með hjálp búnaðar Írisar og skilar sér í þrívídd ef notuð er sérstök þrívíddarsjá.
Íris segir hugmyndina að Kúlu Deeper hafa sprottið af hennar eigin áhuga á þrívíddarljósmyndun. Myndin er tekin með hjálp búnaðar Írisar og skilar sér í þrívídd ef notuð er sérstök þrívíddarsjá. Fréttablaðið/Valli
Hugvitskonan Íris Ólafsdóttir hefur vakið mikla athygli í tækniheimum fyrir uppfinningu sína sem kallast Kúla Deeper. Verkefnið hefur verið í vinnslu um nokkra hríð og er meðal annars styrkt af Tækniþróunarsjóði.

Um er að ræða búnað til að taka þrívíddarmyndir, sem festur er á linsur hefðbundinna speglamyndavéla. Íris vonast til að safna fjármunum upp í kostnað á fyrstu framleiðslu, alls um 8,6 milljónum króna, í gegnum söfnunarsíðuna karolinafund.com.

Söfnunin hófst fyrir réttri viku og Íris segir að hún hafi farið vel af stað.

„Við fengum mjög góða umfjöllun á vefsíðum eins og Wired, Techcrunch og Gizmodo, sem vöktu athygli á verkefninu. Nú hefur verið fjallað um okkur á þúsundum vefsíðna um allan heim.“

Íris segir móttökurnar hafa verið jákvæðar og talsvert rætt um Kúlu Deeper á spjallsíðum ljósmyndaáhugafólks.

„Það hefur auðvitað komið fram gagnrýni líka en hún er almennt uppbyggileg,“ segir hún og bætir við að þeir sem hafa skoðað búnaðinn eða prófað á sýningum og ráðstefnum hafi jafnan pantað eintak.

Á söfnunarsíðunni er hægt að leggja háar og lágar upphæðir til verkefnisins. Þeir sem láta fé af hendi rakna fá svo gjöf í staðinn, allt frá póstkortum og þrívíddarsjám upp í eintök af Kúlu Deeper. Þeir hundrað fyrstu sem gefa 59 evrur eða meira, tæpar 10.000 krónur, fá eitt eintak en eftir það hækkar upphæðin í 79 evrur.

Íris segir framlögin í gegnum vefinn koma víða að.

„Íslendingar hafa verið duglegri að leggja til en ég bjóst við en mér sýnist Þjóðverjar eiga vinninginn í þessu eins og er.“

Ef söfnunin nær fyrrnefndu marki segir Íris að þá verði hún komin langleiðina með að safna upp í kostnað við fyrstu framleiðsluna.

„Þá kemst ég af stað og ég er strax farin að vinna í að undirbúa það.“

Fyrsta framleiðslan verður sennilega sett saman á Íslandi að sögn Írisar, „því að ég vil svolítið standa yfir þessu!“

Íhlutirnir koma svo frá Kína og Evrópu. Speglarnir eru til dæmis frá Þýskalandi. Íris segist hafa helgað sig þessu verkefni í þrjú ár og lagt annað til hliðar, en sér nú fram á að hjólin fari að snúast fyrir alvöru.

„Þetta er framtíðin. Það er engin spurning!“

Íris segir vinnuna við verkefnið hafa komið upp úr áhuga hennar á ljósmyndun.

„Mér fannst alltaf mjög gaman að gera þrívíddarljósmyndir með því að færa vélina milli skota en þá er ekki hægt að taka myndir af hlutum á hreyfingu. Það er mikið af fólki sem hefur áhuga á þrívíddarmyndatökum en er ekki tilbúið til að leggja sinni myndavél og borga fullt af peningum fyrir þrívíddarvél. Kúla Deeper gerir þrívíddartökur aðgengilegar fyrir alla.“

Hvað er Kúla Deeper?

  • Búnaðurinn er festur framan á linsur speglamyndavéla. Speglakerfi gerir það að verkum að þegar mynd er smellt af verða til tvær myndir frá tveimur sjónarhornum. Hægt er að sjá afraksturinn strax á skjá myndavélarinnar með þrívíddarsjá en þegar búið er að færa myndirnar inn í tölvuna er hugbúnaðurinn frekar einfaldur og vinnur þrívíddarmyndir úr völdum myndum.

  • Búnaðinn má festa við 77mm linsu en einnig er hægt að kaupa millistykki á aðrar stærðir.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×