Viðskipti innlent

Fyrsti afgangurinn síðan 2009

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Afgang á viðskiptajöfnuði má að hluta rekja til jákvæðrar þróunar í ferðaþjónustu.
Afgang á viðskiptajöfnuði má að hluta rekja til jákvæðrar þróunar í ferðaþjónustu. Fréttablaðið/Vilhelm
Afgangur var af undirliggjandi viðskiptajöfnuði við útlönd á öðrum ársfjórðungi.

Fram kemur í umfjöllun Greiningar Íslandsbanka að þetta sé í fyrsta sinn frá árinu 2009 sem afgangur mælist á þessum árstíma.

„Undirliggjandi hrein erlend staða þjóðarbúsins virðist viðráðanleg, þótt hún sé vissulega við efri mörk þess sem getur talist sjálfbær staða,“ segir í umfjöllun greiningardeildar bankans um nýbirtar tölur Seðlabankans.

„Undirliggjandi viðskiptajöfnuður var hagstæður um 0,5 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi,“ segir í umfjöllun Greiningar, en það er breyting til hins verra frá fyrsta ársfjórðungi þegar undirliggjandi afgangur var 15,4 milljarðar.

Afkoman er hins vegar sögð töluvert betri en í fyrra þegar mældist 22,6 milljarða króna undirliggjandi halli á sama fjórðungi.

Með undirliggjandi viðskiptajöfnuði er átt við viðskiptajöfnuð að undanskildum reiknuðum þáttatekjum og þáttagjöldum gömlu bankanna.

„En þar er um að ræða stærðir að mestu verða afskrifaðar við uppgjör þeirra,“ segir í umfjöllun Greiningar. Undirliggjandi erlend staða þjóðarbúsins er sögð svipuð og 2004.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×