Viðskipti innlent

Sprotar vongóðir um fjármögnun

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Húsfyllir var í aðalfundarsalnum í höfuðstöðvum Arion banka í gær á fjárfestadegi Startup Reykjavík.
Húsfyllir var í aðalfundarsalnum í höfuðstöðvum Arion banka í gær á fjárfestadegi Startup Reykjavík. FréttablaðiðGVA
Tíu sprotafyrirtæki kynntu hugmyndir sínar á fjárfestadegi Startup Reykjavík í Arion banka í gærmorgun.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, fjallaði í opnunarávarpi sínu um það hvernig ný tækni hafi jafnað tækifæri til nýsköpunar á heimsvísu.

„Nú gilda engar afsakanir lengur. Sköpunarkrafturinn sem okkur hefur verið gefinn er á nýjum leikvelli,“ sagði hann. Núna væri yngsta kynslóðin á heimavelli í nýsköpun og til hennar væri vert að horfa.

Gróska innan tækniframfara hafi raskað hefðbundnum valdahlutföllum og ungt fólk fengið trú og fullvissu um að það geti verið þátttakendur í hugmyndasköpun og nýbreytni á heimsvísu.

Aðalfyrirlesari á fjárfestadeginum var Jonathan Ortmans, forseti Global Entrepreneurship Week.

Hann talaði einnig um breytta tíma þegar úr grasi vaxi kynslóðir sem deili gildum þvert á landamæri og vinni saman að nýsköpun um heim allan. Hann benti á að öll ný störf sem orðið hafi til í Bandaríkjunum síðustu ár hafi komið frá fyrirtækjum fimm ára og yngri.

Þjóðir heims átti sig því á því í auknum mæli hversu miklu skipti fyrir framþróun og hagvöxt að styðja við sprotafyrirtæki.

Kristján Freyr Kristjánsson, framkvæmdastjóri Klaks Innovit og Höskuldur Ólafsson, forstjóri Arion banka.Fréttablaðið/GVA
Startup Reykjavik er samstarfsverkefni Arion banka, Klaks og Innovit. Valin eru tíu viðskiptateymi sem meðal annars fá tvær milljónir í hlutafé frá Arion banka gegn 6 prósenta eignarhlut í fyrirtækinu.

Þá fá þau tíu vikna þjálfun, aðsetur í húsnæði við Borgartún í Reykjavík, aðgang að tengslaneti Global Accelerator Network og kynna svo að lokum verkefni sín fyrir fjárfestum.

Sprotafyrirtækin sem kynntu verkefni sín í gær:

SAReye kynnti aðgerðar og krísustjórnunarkerfi fyrir viðbragðsaðila og stærri fyrirtæki.

Activity Stream greinir gagnlegar upplýsingar úr viðskiptahugbúnaði fyrirtækja.

Snjohus Software hannar hugbúnað fyrir snallsíma, þar á meðal einkaþjálfaraappið Vfit.

Herberia þróar og skráir jurtalyf á Evrópumarkað.

Þoran Distillery hyggur á framleiðslu maltviskís á Íslandi.

Silverberg býr til mælingarbúnað fyrir líkamsræktarstöðvar og hugbúnað fyrir notendur.

Golf Pro Assistant er vefhugbúnaður fyrir golfkennara og nemendur.

SeeMee ef vefviðmót fyrir atvinnuumsóknir með myndskeiðum og öðrum gögnum.

Y-Z hannar og selur kvenfatnað sem hægt er að breyta eftir aðstæðum.

Zalibuna hyggur á sleðaferðir niður Kambana með veitinga- og minjagripasölu.

Frekari upplýsingar um verkefnin er að finna á vef Startup Reykjavik.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands ávarpaði gesti í upphafi fjárfestadags Startup Reykjavik í gærmorgun.Fréttablaðið/GVA
Þórður Sverrisson forstjóri Nýherja og Arnar Þórisson hjá Íslenskri fjárfestingu stinga saman nefjum.Fréttablaðið/GVA
Páll Harðarson, forstjóri Nasdaq OMX Iceland (Kauphallar Íslands) og Finnur Oddsson aðstoðarforstjóri Nýherja.Fréttablaðið/GVA
Jón Stephenson von Tetzchner fjárfestir og stofnandi Opera Software var meðal gesta á fjárfestadegi Startup Reykjavik.Fréttablaðið/GVA
Brynjólfur Helgason, Björn Leifsson, Kolbrún Jónsdóttir, og Hafdís Jónsdóttir, líta upp fyrir ljósmyndara í Arion banka í gær.Fréttablaðið/GVA
Feðgarnir Erlendur Hjaltason og Hjalti Geir Kristjánsson ræða við Finn Sveinbjörnsson á Startup Reykjavik Investor Day í höfuðstöðvum Arion banka í Borgartúni í gær.Fréttablaðið/GVA





Fleiri fréttir

Sjá meira


×