Viðskipti innlent

Aukin umsvif skýra hagnað

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Færeyska flugfélagið Atlantic Airways er skráð í Kauphöll Íslands.
Færeyska flugfélagið Atlantic Airways er skráð í Kauphöll Íslands. Fréttablaðið/Stefán
Tekjur Atlantic Airways á öðrum ársfjórðungi jukust um rúm fimm prósent, miðað við sama tímabil í fyrra, samkvæmt nýbirtu árshlutauppgjöri félagsins.

Tekjur á fjórðungnum námu 129,5 milljónum danskra króna, eða sem svarar tæplega 2,8 milljörðum íslenskra króna. Á sama tíma í fyrra voru tekjur félagsins 122,8 milljónir danskra króna.

Aukningin er sögð skýrast af fjölgun farþega í áætlunarflugi, auknum umsvifum félagsins og að hluta af aukinni sölu í fríhöfn.

Hagnaður félagsins eftir skatta á fyrri helmingi ársins er ríflega helmingi meiri en í fyrra, 3,5 milljónir danskra króna (rúmar 75 milljónir íslenskar).

Í tilkynningu félagsins til Kauphallar er haft eftir Magne Arge, forstjóra félagsins, að hann búist við að tölur fyrir árið í heild verði svipaðar og í fyrra.

Það segir hann þó með fyrirvara um að eldsneytisverð, slæmt veður og samdráttur í ferðum vegna óeirða í Egyptalandi gætu haft neikvæð áhrif á reksturinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×