Viðskipti innlent

Aflaverðmæti íslenskra skipa jókst um 0,8% í júlí

Þorgils Jónsson skrifar
Aflatölur Hagstofu sýna að 2.900 tonna aukning var á þorskafla í júlí miðað við sama mánuð í fyrra.
Aflatölur Hagstofu sýna að 2.900 tonna aukning var á þorskafla í júlí miðað við sama mánuð í fyrra.
Heildarafli íslenskra skipa í síðasta mánuði, metinn á föstu verði, var 0,8% meiri en í júlí í fyrra, samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Aflinn dróst hins vegar saman í heildartonnum nam alls 101.444 tonnum í júlí samanborið við 113.051 tonn í júlí 2012.

Botnfiskafli jókst um tæp 2.800 tonn frá júlí 2012 og nam tæpum 27.100 tonnum. Þar af var þorskaflinn tæp 13.200 tonn, sem er aukning um tæp 2.900 tonn frá fyrra ári. Ýsuaflinn nam rúmum 1.700 tonnum sem er 295 tonnum minni afli en í júlí 2012. Karfaaflinn nam tæpum 4.000 tonnum í júlí 2013 sem er rúmlega 1.200 tonna meiri afli en í fyrra. Rúm 5.000 tonn veiddust af ufsa sem er 170 tonna aukning frá júlí 2012.

Afli uppsjávartegunda nam rúmum 70.900 tonnum, sem er rúmlega 14.400 tonnum minni afli en í júlí 2012. Samdráttinn má rekja til 8.900 tonna samdráttar í síldarafla og rúmlega 8.100 tonna samdráttar í makrílafla.

Flatfiskaflinn var rúm 2.300 tonn í júlí 2013 og jókst um 709 tonn frá fyrra ári. Skel- og krabbadýraafli nam 913 tonnum samanborið við tæplega 1.600 tonna afla í júlí 2012.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×