Viðskipti innlent

Þarf að eyða öfluðum gögnum

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Upplýsingaöflun Umboðsmanns skuldara í máli einstæðrar móður var ekki í samræmi við lögu um persónuvernd.
Upplýsingaöflun Umboðsmanns skuldara í máli einstæðrar móður var ekki í samræmi við lögu um persónuvernd. Fréttablaðið/Stefán
Umboðsmanni skuldara var óheimilt að kalla eftir fjárhags- og skattupplýsingum foreldra ríflega tvítugrar konu sem sótt hafði greiðsluaðlögun hjá embættinu, samkvæmt nýföllnum úrskurði Persónuverndar.

Konan, sem er einstæð móðir með eitt barn, hafði í greiðsluerfiðleikum flutt tímabundið aftur í foreldrahús.

Í svörum umboðsmanns skuldara til Persónuverndar kemur fram að kallað hafi verið eftir upplýsingunum til þess að meta kostnað við heimilishald.

Kallað var eftir launaseðlum þrjá mánuði aftur í tímann, auk afrita af síðustu fjórum skattframtölum.

Persónuvernd komst meðal annars að þeirri niðurstöðu að tímabundin búseta á einum stað réttlætti ekki jafnviðamikla upplýsingagjöf „jafnvel þótt um sé að ræða foreldra uppkominsskuldara“.

Þá verði ekki ráðið af lögunum um skuldaaðlögun að sækja megi upplýsingar um alla sem búa undir sama þaki og skuldari, heldur sé það bundið við þá sem halda með honum heimili.

Umboðsmanni skuldara var því gert að eyða skattframtölum og launaseðlum sem aflað hafði verið hjá foreldrum konunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×