Viðskipti innlent

Bætt kjör skila sér ekki í verði

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Áframhaldandi verðlækkun á korni gæti síðar skilað sér í lægra matarverði hér.
Áframhaldandi verðlækkun á korni gæti síðar skilað sér í lægra matarverði hér. Fréttablaðið/Vilhelm
Styrking krónu frá ársbyrjun og lækkun á hrávöruverði á erlendum mörkuðum hefur ekki skilað sér hér í lægra matvöruverði. Þetta kemur fram í nýrri umfjöllun greiningardeildar Arion banka.

Í ljósi þess að spáð er áframhaldandi verðlækkun á korni næstu 12 mánuði er í umfjölluninni ekki talið útilokað að svigrúm verði hér fyrir lækkun matvöruverðs á komandi misserum, tekist Seðlabankanum að halda gengi krónunnar stöðugu.

Í umfjöllun greiningardeildarinnar eru þrjár ástæður sagðar helstar fyrir því að styrking krónu og lægra hrávöruverð hafi ekki þegar skilað sér í lægra matarverði hér. Mögulega taki fyrirtæki þann pól í hæðina að styrking krónu sé tímabundin en veikingin varanleg.

„Fyrirtækin hika því við að lækka vöruverðið hjá sér þegar krónan er að styrkjast en bregðast jafnan skjótt við þegar krónan fer að veikjast,“ segir í umfjölluninni.

Þá er bent á að kjarasamningar hafi haft áhrif á launakostnað sem þrýst hafi á hærra matvöruverð og að framleiðendur kunni að vera að sækja til baka framlegðartap sem þeir hafi mátt þola á árunum 2011 og fram til 2012.

Umfjöllun greiningardeildarinnar má finna hér á vef Arion banka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×