Viðskipti innlent

Segir árangurstengt launakerfi hafa verið eina kostinn í stöðunni

Lovísa Eiríksdóttir skrifar
Starfsmenn Landsbankans fá tæplega eins prósents hlut í bankanum samkvæmt árangurstengdu launakerfi bankans sem samið var um árið 2009.
Starfsmenn Landsbankans fá tæplega eins prósents hlut í bankanum samkvæmt árangurstengdu launakerfi bankans sem samið var um árið 2009.
Nýlega var tilkynnt að starfsmenn Landsbankans myndu eignast tæplega eins prósents hlut í bankanum.

Afhending hlutabréfanna byggist á samningi frá 15. desember 2009 en þá gerðu gamli Landsbankinn, nýi Landsbankinn og íslenska ríkið samning um fjárhagsuppgjör. Með samþykki ríkisins var nýja Landsbankanum gert að koma á árangurstengdu launakerfi fyrir starfsmenn bankans.

Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, segir að þessi niðurstaða hafi verið sú skásta sem fékkst í samningaviðræðunum.

„Upphaflega krafan frá erlendu kröfuhöfunum var að koma á árangurstengdu launakerfi fyrir einungis yfirmenn. Við höfnuðum því alfarið. Eftir mikið þóf varð niðurstaðan sú að kerfið tæki til allra starfsmanna bankans,“ segir Steingrímur og bendir á að þessar eignir sem ráðstafað er til starfsmanna bankans hafi í raun verið eignir kröfuhafa en ekki ríkisins.

Á hluthafafundi í Landsbankanum hf. sem haldinn var 17. júlí síðastliðinn, voru staðfestar úthlutunarreglur um afhendingu hlutabréfa til starfsmanna. Aðalatriði afhendingar hlutabréfanna er að eignarhlutur rúmlega 1.400 núverandi og fyrrverandi starfsmanna í Landsbankanum hf. verði innan við eitt prósent.

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að hún teldi óeðlilegt að hægt væri að ráðstafa eignum ríkisins með þessum hætti. 

„Ég velti fyrir mér hvort það sé lagastoð fyrir þessari úthlutun því þetta lítur út fyrir að vera nokkurs konar gjafagjörningur. Það er alveg klárt í fjárlögum að þegar á að selja ríkisfyrirtæki eða hluta úr ríkisfyrirtækjum þarf að færa slíka heimild í gegnum þingið,“ segir Vigdís sem telur gjörninginn siðlausan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×