Viðskipti innlent

Efla þarf stöðu íslenskra neytenda á fjármálamarkaði

Lovísa Eiríksdóttir skrifar
Þrír stærstu bankar á Íslandi eru í sameiginlegum yfirráðum á markaði, sem setur íslenska neytendur í slæma stöðu.
Þrír stærstu bankar á Íslandi eru í sameiginlegum yfirráðum á markaði, sem setur íslenska neytendur í slæma stöðu. Samsett mynd
Ásgeir Jónsson
Staða íslenskra neytenda á fjármálamarkaði er bágmorin samanborið við önnur Norðurlandaríki, að mati nefndar um málið sem skipuð var af forsætisráðuneytinu.

Nefndin leggur til að samkeppnisumhverfi á fjármálamarkaði verði styrkt, meðal annars með því að afnema stimpilgjöld og bæta upplýsingagjöf neytenda á markaðnum, en slíku er afar ábótavant.

„Við teljum að stimpilgjöld og almenn lántökugjöld séu samkeppnisleg hindrun á fjármálamarkaði þar sem þau koma í veg fyrir að fýsilegt sé fyrir viðskiptavini bankastofnana að skipta um lánveitanda sem býður betri kjör,“ segir Guðbjörg Eva Baldursdóttir, formaður nefndarinnar, og bætir við að mikilvægt sé að stjórnvöld fari í endurskoðun á slíkum gjöldum. „Stimpilgjöld eru fáheyrð öðrum Evrópuríkjum enda koma þau í veg fyrir eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði.“

Nefndin leggur einnig til að sett verði á fót einhvers konar samanburðarverðsjá þar sem allar upplýsingar um fjármálaþjónustu eru veittar á skýran og aðgengilegan hátt og að stofnað verði nýtt embætti sem reki slíka þjónustu ásamt því að halda utan um neytendamál á þessu sviði.

Guðbjörg Eva Baldursdóttir
„Það er lykilatriði að veita neytendum samanburð á kjörum fjármálastofnana, sem er erfiðleikum háð í dag. Eins og staðan er núna er ógjörningur að fara í samanburð á kjörum en slíka þjónustu er að finna í öllum hinum Norðurlandaríkjunum,“ segir Guðbjörg Eva og bætir við að bankarnir þrír séu allir með sama lántökugjald sem gripið er úr lausu lofti.

„Fjármálaafurðir eru flóknari í eðli sínu en aðrar vörur en það verður að tryggja að neytendur á þeim markaði fái sömu vernd og á öðrum mörkuðum.“

Ásgeir Jónson hagfræðingur tekur undir tillögur nefndarinnar og segir gríðarlega mikilvægt að auka gegnsæi á markaðnum.

„Það ríkir nokkurs konar einokun á íslenskum bankamarkaði sem þarf að vinna gegn og það er meðal annars gert með því að gefa neytendum greiðari aðgang að upplýsingum um fjármögnunarleiðir og að halda lántökugjöldum í lágmarki til þess að auðvelda þeim að færa sig á milli fjármálastofnana,“ segir Ásgeir.

„Til dæmis eru stimpilgjöld gjöld sem þarf að greiða fyrir enga þjónustu, slík gjaldtaka hindrar samkeppni og hana þarf að afnema,“ segir Ásgeir og leggur áherslu á að lykilatriði sé að auka upplýsingaflæði til neytenda um mismunandi fjármögnunarleiðir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×