Viðskipti innlent

Drómi gæti talist brotlegur

Lovísa Eiríksdóttir skrifar
Frosti Sigurjónsson gerir athugsemd við viðskiptahætti Dróma.
Frosti Sigurjónsson gerir athugsemd við viðskiptahætti Dróma.
Fjármálaeftirlitið vinnur nú að sérstakri athugun sem snýr að viðskiptaháttum Dróma og hvort félagið brjóti lög með því að krefja lántakendur um mismun á láni sem áður hefur verið endurreiknað.

Drómi telur að lánið sem um ræðir sé löglegt lán í erlendri mynt og því hafi ekki átt að endurreikna það í samræmi við lög um gengistryggð lán. Drómi ákvað í kjölfarið að krefja lántakendur um að greiða mismuninn aftur sem nemur 1,5 milljörðum króna.

Frosti Sigurjónsson, alþingismaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, segir á bloggsíðu sinni að svo virðist sem Drómi hafi með þessu sett viðskiptavini sína í verri stöðu en viðskiptavini annarra fjármálastofnana sem fengu gengistryggð lán sín endurreiknuð.

Efnahags- og viðskiptanefnd hefur því sent skriflega fyrirspurn til Fjármálaeftirlitsins um hvort hugsanlegt geti verið að Drómi sé með viðskiptaháttum sínum að brjóta lög, en eftirlitið á samkvæmt lögum að tryggja að framganga og viðskiptahættir fjármálastofnanna gagnvart viðskiptavinum sé í samræmi við það sem almennt tíðkast hjá fjármálafyrirtækjum.

Fram kemur í svari frá Fjármálaeftirlitinu að ekki sé hægt að leggja mat á málið fyrr en eftirlitið hafi aflað sér frekari upplýsinga. Ef kemur í ljós að Drómi hafi á einhvern hátt farið á svig við lög getur eftirlitið beitt sektum eða farið fram á úrbætur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×