Viðskipti innlent

Lífeyrisjóðirnir hugleiða kaup á Hampiðjureitnum

Lovísa Eiríksdóttir skrifar
Teikningar af íbúðarhúsnæðinu á Hampiðjureitnum. Áætlað er að fullnaðarframkvæmdum ljúki árið 2015.
Teikningar af íbúðarhúsnæðinu á Hampiðjureitnum. Áætlað er að fullnaðarframkvæmdum ljúki árið 2015.
Lífeyrissjóðir huga nú að því að fjárfesta í 139 íbúðum á Hampiðjureitnum svokallaða við Stakkholt í Reykjavík. Fjárfestingin hljóðar upp á 4,3 milljarða króna og eru íbúðirnar ætlaðar á almennan leigumarkað. Framkvæmdir hófust á ný fyrr á þessu ári og eru nú í fullum gangi eftir að hlé sem var gert á þeim eftir hrun.

„Við leggjum áherslu á minni íbúðir. Meðalstærðin á íbúðunum er 88 fermetrar en það er markaður fyrir íbúðum af þessu tagi,“ segi Þorvaldur Gissurason, forstjóri og eigandi ÞG verktaka sem sjá um framkvæmdina. „Áætlað er að fyrsta áfanga, með 70 íbúðum ljúki haustið 2014 en stefnt er að fullnaðarframkvæmdum ljúki vorið 2015.“

ÞG verktakar eru nú búnir að skrifa undir samning við fjármálafyrirtækið Centra fyrirtækjaráðgjöf ehf. sem vinna nú að því að kynna verkefnið fyrir helstu lífeyrissjóðum landsins.

Árið 2011 var lögum breytt þannig að lífeyrissjóði er nú heimilt að stofna félag um rekstur íbúðarhúsnæðis og gera samning við einkaaðila um slíkan rekstur, þar á meðal fasteignum til útleigu. Lífeyrissjóðum er jafnframt heimilt að fjárfesta í íbúðarhúsnæði og halda því við yfirtöku.

Sigurður Harðarson framkvæmdastjóri Centra
„Þetta er einstakt verkefni því meðalstærð á íbúðum er í minni kantinum og gífurleg eftirspurn er eftir íbúðum hjá ungu fólki sem á ekki fyrir útborgun á eigin húsnæði,“ segir Sigurður Harðarson, framkvæmdastjóri og meðeigandi Centra.

„Við höfum kynnt verkefnið fyrir stærstu lífeyrissjóðunum og nú eru þeir að kanna fýsileika fjárfestingarinnar,“ bætir Sigurður við sem segist jákvæður á útkomuna. „Centra er búið að gera samkomulag um kaupin á íbúðunum og ég hef fulla trú á því að lífeyrissjóðirnir eigi eftir að koma með fjármagn inní verkefnið. Það er eðlilegt að leiga sé valkostur fyrir alla og við stuðla að því.“

Sveinn Halldórsson, ráðgjafi lífeyrissjóðanna í húsnæðismálum segir að verulegur skortur sé á leiguíbúðum á höfðuborgasvæðinu. „Nú er mun erfiðara fyrir ungt og tekjuminna fólk að kaupa sér húsnæði og því vert fyrir lífeyrissjóðinna að kanna slíka fjárfestingamöguleika.“ segir Stefán en ítrekar þó að það sé ekki í hans verkahring að ákveða slíkt. „Nú hafa lífeyrissjóðirnir tekið höndum saman og eru að skoða mögulgea aðkomu þeirra að uppbyggingu leigumarkaðar. Svo er það þeirra að taka ákvörðun um einstök verkefni.“

Fréttablaðið fékk þau svör frá nokkrum lífeyrissjóðum að þetta einstaka mál hafi verið kynnt fyrir þeim en engar ákvarðanir hafi þó verið teknar um málið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×