Viðskipti innlent

Kortavelta erlendra ferðamanna eykst milli ára

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Á meðan aukning er í erlendri greiðslukortaveltu í maí er 3,1 prósents samdráttur í veltu Íslendinga.
Á meðan aukning er í erlendri greiðslukortaveltu í maí er 3,1 prósents samdráttur í veltu Íslendinga. Fréttablaðið/Vilhelm
Greiðslukortavelta erlendar ferðamanna í maí jókst um 17,9 prósent frá sama mánuði í fyrra, að því er fram kemur í nýjum tölum Rannsóknaseturs verslunarinnar á Bifröst. Á sama tíma dróst kortavelta Íslendinga saman um 3,1 prósent.



„Aukningin skilar sér til verslunar, veitingahúsa, hótela, í menningarstarfsemi og ýmsa aðra þjónustu,“ segir í umfjöllun Rannsóknasetursins.

Meðal annars kemur fram að erlendir ferðamenn hafi í mánuðinum greitt hér með kortum sínum 554 milljónir króna fyrir bílaleigubíla. Upphæðin er fjórðungi hærri en í maí í fyrra.

„Bílaleigum fjölgar ört og eru nú skráðar 140 bílaleigur á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum Samgöngustofu eru skráðar nokkrar nýjar bílaleigur vikulega. Þannig er til dæmis gert ráð skráningu á þremur nýjum bílaleigum í þessari viku.“

Þá kemur fram að ríflega fimmtungsaukning hafi orðið á kortaveltu erlendra ferðamanna vegna gistingar.

„Í maí var erlend kortavelta hér á landi vegna gistingar næstum 1,5 milljarðar króna, sem er 22,2 prósenta aukning frá sama mánuði í fyrra. Aukning í veitingasölu til erlendra ferðamanna nam 17,2 prósentum frá síðasta ári.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×