Viðskipti innlent

Býður upp á tvöfalt hraðari 3G-tengingar

Þorgils Jónsson skrifar
Síminn býður nú upp á tvöfalt hraðari tengingar á 3G-farsímakerfi sínu. Upplýsingafulltrúi Símans boðar enn meiri hraða á komandi árum.
Síminn býður nú upp á tvöfalt hraðari tengingar á 3G-farsímakerfi sínu. Upplýsingafulltrúi Símans boðar enn meiri hraða á komandi árum.
Síminn hefur sett upp nítján 3G-senda af hraðvirkustu gerð víða um land, en þeir eiga að ná 42 Mb/s og eru þannig tvöfalt hraðvirkari en hröðustu forverarnir hjá Símanum.

Þessi efling 3G-kerfisins er gerð samhliða undirbúningi 4G-uppbyggingar, sem hefjast á síðla hausts.

„Það kemur líklega mörgum á óvart að nú er mesti vöxturinn í 3G-farsímatækni í heiminum og útlit fyrir að hraðinn á 3G eigi enn eftir að tvöfaldast,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans.

„Þetta er ástæða þess að við hjá Símanum byggjum enn upp 3G-kerfið okkar, auk þess að hefja uppsetningu á 4G-kerfinu.“

Sendarnir nítján eru á á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri, Keflavík, Egilsstöðum, Grímsnesi, Biskupstungum, Laugarvatni og Selfossi.

„Þetta er byrjunin,“ segir Gunnhildur. „Við hlökkum til að sjá hvernig viðskiptavinir okkar upplifa kraftinn aukast enn á dreifikerfi Símans,“ en hún bætir við að á endanum muni viðskiptavinir fjarskiptafyrirtækja ekki gera greinamun á tengingu með 3G og 4G.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×