Viðskipti innlent

Telur sig ekki geta sótt 15 milljarða til Jóns Ásgeirs

Stígur Helgason skrifar
Jón Ásgeir Jóhannesson
Jón Ásgeir Jóhannesson
Skiptastjóri Baugs féll í gær frá fimmtán milljarða skaðabótamáli á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni sem höfðað var vegna viðskiptanna með Haga sumarið 2008.

Ástæðan er sú að í nóvember var máli skiptastjórans gegn þremur erlendum tryggingafélögum vísað frá dómi. Þau höfðu selt Baugi tryggingar sem áttu að bæta tjón sem stjórnendur kynnu að valda. Þegar skiptastjóranum Erlendi Gíslasyni varð ljóst að ekkert yrði úr málsókn á hendur tryggingafélögunum ákvað hann að hætta við málið, enda sá hann ekki fram á að geta sótt neitt sem heitið gæti til Jóns Ásgeirs sjálfs, að hans sögn.

Fréttablaðið sagði fyrst frá málinu sumarið 2011. Það snerist um það þegar Hagar voru seldir frá Baugi til 1998 ehf. í lok júní 2008, í fléttu sem kölluð var Project Polo. Fimmtán milljarðar af söluverðinu fóru beint í það að kaupa hlutabréf í Baugi af fjórum félögum, sem öll voru í eigu stjórnarmanna Baugs.

Skiptastjórinn leit svo á að bréfin í Baugi hefðu þá verið verðlaus og Jón Ásgeir hefði komið verðmætum frá félaginu í vasa sjálfs sín og sér nákominna.

Jón Ásgeir mótmælti þessu og sagði að Baugur hefði engu tapað á viðskiptunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×