Viðskipti innlent

Skýrslan kynnt á næstu dögum

Stígur Helgason skrifar
Nefndinni voru upphaflega ætlaðir sex mánuðir til starfans en hún hefur ítrekað fengið frest og hefur nú starfað í tæpa 22 mánuði.
Nefndinni voru upphaflega ætlaðir sex mánuðir til starfans en hún hefur ítrekað fengið frest og hefur nú starfað í tæpa 22 mánuði. fréttablaðið/gva
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð er svo gott sem tilbúin. Einungis lokafrágangur er eftir og Sigurður Hallur Stefánsson, formaður nefndarinnar, segir að boð á kynningarfund um skýrsluna verði að öllum líkindum sent út á næstu dögum.

Nefndin var skipuð í septemberbyrjun 2011 og var henni fengið það hlutverk að rannsaka starfsemi Íbúðalánasjóðs frá aðdraganda breytinganna á fjármögnun og lánareglum hans árið 2004 og til ársloka 2012.

Enn fremur að meta áhrifin af breytingunum, stefnu sjóðsins og einstökum ákvörðunum á fjárhag sjóðsins og fasteignamarkaðinn og áhrif starfsemi hans á stjórn efnahagsmála. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins er stefnt að því að umræða geti farið fram um niðurstöður skýrslunnar á Alþingi áður en sumarþingi lýkur í byrjun júlí. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er lengd skýrslunnar talin í hundruðum blaðsíðna.

Nefndinni voru upphaflega ætlaðir sex mánuðir til starfans en hún hefur ítrekað fengið frest og hefur nú starfað í tæpa 22 mánuði.

Það sama er að segja um rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina, sem var skipuð á sama tíma. Skýrslu hennar verður skilað seinna, en á fundi með forsætisnefnd þingsins í febrúar greindi nefndarformaðurinn frá því að nefndin þyrfti fjóra mánuði enn til að ljúka verkinu, eða til loka júní.

Skýrsla sparisjóðanefndarinnar verður nánast jafnlöng og sú um stóru bankana þrjá sem skilað var í apríl 2010. Prentuð útgáfa hennar var um tvö þúsund blaðsíður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×