Viðskipti innlent

Starfsmenn hjóla til vinnu en geta fengið lánaðan flýtibíl til að skjótast frá

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Finnur Sveinsson, sérfræðingur hjá Landsbankanum,stýrir þessu nýstárlega verkefni sem stuðlar að vistvænum samgöngum starfsmanna Landsbankans.
Finnur Sveinsson, sérfræðingur hjá Landsbankanum,stýrir þessu nýstárlega verkefni sem stuðlar að vistvænum samgöngum starfsmanna Landsbankans.
Starfsmönnum Landsbankans gefast frá og með ­deginum í dag kostur á að fá lánaðan bíl til styttri eða lengri tíma og draga þannig úr notkun einkabílsins.

Verkefnið gengur undir nafninu Flýtibílar og er hluti af samgöngusamningi Landsbankans sem 360 starfsmenn hafa samþykkt. ­Finnur Sveinsson, sérfræðingur hjá Landsbankanum, segir samgöngu­samninginn fela í sér hvatningu til starfsmanna um að nota vistvænar samgöngur, það er að nota allan annan ferðamáta en einkabílinn.

„Það kemur oft upp í umræðunni að fólk komi á bíl í vinnuna vegna þess að það gæti þurft að skreppa eða hreinlega bara af því að það eigi hvort sem er bíl. Við bjóðum okkar starfsmönnum að nota ­frekar almenningssamgöngur þegar þeir geta og bílinn bara þegar þeir verða,“ segir Finnur. Hann segir samgöngusamninginn einnig hugsaðan sem kjarabót þar sem þetta geti orðið til þess að fólk getur losað sig við annan heimilis­bílinn.

Þá kveðst Finnur vona að fleiri fyrirtæki taki þetta upp, þrátt fyrir að Landsbankinn hafi átt frumkvæði að verkefninu, og jafnvel að bílaleigufyrirtæki taki upp á því að bjóða upp á þjónustuna á almennum markaði.

Verkefnið Flýtibílar er unnið í samstarfi við bílaleiguna Höldur. Pálmi Viðar Snorrason hjá Höldi segist spenntur fyrir verkefninu. 

„Það eru þrjár leiðir fyrir fólk til þess að bóka bíl. Í fyrsta lagi á netinu á sérstakri flýtibílasíðu, í öðru lagi í gegnum síma og síðan getur fólk sent tölvupóst.“ segir Pálmi Viðar. 

Þegar starfsmenn hafa pantað bílinn fá þeir hann afhentan á tilsettum tíma hvar sem þeir kjósa. Ef fólk þarf skyndilega á bíl að halda getur hann verið kominn til þeirra innan 20 mínútna. Að ­nýtingartíma loknum er flýtibíllinn skilinn eftir þar sem leigutaka hentar þar sem hann er síðan ­sóttur af starfsmanni Hölds. Upphæð gjaldsins fer eftir lengd leigunnar og kílómetrafjölda. 

Pálmi segir það koma vel til greina að færa verkefnið yfir á almennan markað. „Okkur langar að sjá hvernig þetta þróast áður en við tökum þetta yfir á næsta level. Vonandi verður þetta framtíðin í bænum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×