Viðskipti innlent

Tvöfalt meiri sala á farsímum en í fyrra

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Snjallsímavæðingin hefur tvöfaldað sölu farsíma milli ára.
Snjallsímavæðingin hefur tvöfaldað sölu farsíma milli ára. Mynd/AFP

Landsmenn kaupa farsíma sem aldrei fyrr, samkvæmt upplýsingum Rannsóknaseturs verslunarinnar. Í maí voru farsímar keyptir fyrir 69,1 prósents hærri upphæð en í sama mánuði ári fyrr.

„Á sama tíma lækkaði verð á farsímum samkvæmt verðmælingum Hagstofunnar um sextán prósent, sem felur í sér að raunvelta í sölu farsíma tvöfaldaðist á milli ára,“ segir í nýrri umfjöllun frá Rannsóknasetri verslunarinnar. 



Ástæðan fyrir aukinni farsímasölu er sögð sú að snjallsímar séu í auknum mæli að taka við af eldri gerðum síma. Þannig hafi í mánuðinum komið á markað nýjar gerðir af snjallsímum sem haft hafi í för með sér mikla endurnýjun.

Samhliða hraðri tækniþróun á farsímamarkaði, sem felur meðal annars í sér að netnotkun fer í auknum mæli í gegnum símtækin, lækkar verð á eldri gerðum farsíma mjög hratt, eða þær falla úr sölu.

„Ætla má að þessi mikla endurnýjun, þar sem eldri gerðir hverfa af markaði, torveldi nokkuð verðsamanburð á sambærilegum tækjum á milli ára,“ segir í umfjöllun Rannsóknasetursins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×