Viðskipti innlent

Innanlandsflugið dregst saman

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Þriggja prósenta aukning varð milli ára á fraktflutningum Icelandair í maí.
Þriggja prósenta aukning varð milli ára á fraktflutningum Icelandair í maí. Fréttablaðið/Pjetur
Fjölgun farþega í millilandaflugi Icelandair í maí miðað við sama mánuð í fyrra nemur 16 prósentum. Í mánuðinum var flogið með 192 þúsund farþega.

„Framboðsaukning á milli ára nam 24 prósentum og sætanýting var 78,7 prósent miðað við 82,0 prósent á sama tíma í fyrra,“ segir í tilkynningu félagsins til Kauphallar. Mest fjölgaði farþegum á Norður-Atlantshafsmarkaði, eða um 32 prósent. Þeir voru 45 prósent af heildarfarþegafjölda félagsins í millilandaflugi.

Farþegum í innanlands-og Grænlandsflugi fækkaði á sama tíma um 11 prósent. Þeir voru 25 þúsund í maí. Sætaframboð félagsins á þeim leiðum hafði dregið saman um 16 prósent miðað við maí í fyrra.

Sætanýting í innanlands- og Grænlandsflugi var tæpum tveimur prósentum betri en í fyrra, 70,3 prósent. Þá kemur fram í Kauphallartilkynningu Icelandair að seldum gistinóttum á hótelum félagsins hafi fjölgað um átta prósent á sama tíma og framboð gistingar hafi verið aukið um sjö prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×